Fara í efni

Friðuð hús og mannvirki

Byggingararfur

Til byggingararfs teljast hús og önnur mannvirki og einstakir hlutar þeirra sem hafa menningarsögulegt, vísindalegt eða listrænt gildi, svo sem:

  1. stök hús eða hlutar þeirra og húsasamstæður, hvort sem er til íbúðar eða menningar- og atvinnustarfsemi í þéttbýli eða dreifbýli, húsaþyrpingar og götumyndir,
  2. kirkjur og bænhús, ásamt tilheyrandi mannvirkjum, svo sem klukkuturnum, garðhleðslum og sáluhliðum, klaustur, samkomuhús, skólahús og nánasta umhverfi þeirra, aðrar opinberar byggingar, íþróttamannvirki og sundlaugar,
  3. brýr og hvers konar samgöngumannvirki, virkjanir, stíflur, dælustöðvar og önnur orkumannvirki, hafnarmannvirki, vind- og vatnsmyllur, vitar, slippir, hjallar, manngerðir hellar og réttir.

Kornsá - Sýslumannshúsið í Vatnsdal, Áshreppi. Byggt árið 1879.

 

Varðveislustig byggingararfs (húsa og mannvirkja) eru þrjú:

  1. Friðlýstar eru annars vegar allar þær 502 byggingar sem friðaðar voru samkvæmt eldri lögum 31. desember 2012. Hins vegar þau hús og mannvirki sem ráðherra hefur ákveðið friðlýsingu á eftir þann tíma, að fenginni tillögu Minjastofnunar Íslands.
  2. Öll hús og mannvirki sem byggð voru árið 1923 eða fyrr eru friðuð.
  3. Framkvæmdir við hús og mannvirki sem byggð voru 1940 eða fyrr eru umsagnarskyld.

Friðuð hús og mannvirki

Öll hús og mannvirki á Íslandi byggð árið 1923 eða fyrr eru friðuð.

Minjastofnun Íslands hefur það lögbundna hlutverk að halda heildarskrár yfir friðuð og friðlýst hús og gera þær aðgengilegar almenningi. Hægt er að sjá yfirlit yfir friðlýst hús á heimasíðunni, hér: Friðlýst hús og mannvirki | Minjastofnun.

Skyndifriðun

Minjastofnun Íslands getur ákveðið skyndifriðun húsa og mannvirkja sem hafa sérstakt menningarsögulegt, vísindalegt eða listrænt gildi, en hafa þó ekki verið friðlýst eða njóta lögbundinnar friðunar, sé hætta á að byggingunum verði spillt, þær glatist eða gildi þeirra rýrt á einhvern hátt. Meðan á skyndifriðun stendur gilda reglur um friðlýsingu.

Skyndifriðun tekur gildi þegar Minjastofnun Íslands hefur tilkynnt öllum hlutaðeigandi aðilum um ákvörðun sína með tryggilegum hætti. Ákvörðun er bindandi eftir að tilkynning um hana er komin til aðila og gildir í allt að sex vikur.

Ráðherra ákveður hvort friðlýsa skuli viðkomandi menningarminjar áður en skyndifriðun lýkur að fenginni tillögu Minjastofnunar Íslands.

Framkvæmdir við friðað hús eða mannvirki

Óheimilt er að raska friðuðum húsum og mannvirkjum, spilla þeim eða breyta, rífa þau eða flytja úr stað nema með leyfi Minjastofnunar Íslands. Miðað er við að leitað sé leyfis stofnunarinnar áður en ráðist er í allar byggingaleyfisskyldar framkvæmdir og sömu gögn send Minjastofnun til umsagnar og senda þarf til byggingarfulltrúa.

Leiðbeiningar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um byggingaleyfisskyldar framkvæmdir.

Byggingarreglugerð í heild sinni.

Viðhald friðaðs húss eða mannvirkis

Halda má við friðuðum húsum, mannvirkjum og mála þau án sérstaks samráðs við Minjastofnun Íslands, sé ekki um byggingaleyfisskyldar framkvæmdir að ræða.