Skráning vegna skipulags - húsakönnun - Huginn
Í 16. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012 er kveðið á um að skráning húsa og mannvirkja skuli fara fram áður en gengið er frá aðalskipulagi eða deiliskipulagi.
Skráning menningarminja og gerð húsakannana er mikilvægur þáttur þess að tryggja verndun og varðveislu menningararfsins. Með gerð húsakannana fæst yfirlit yfir byggingararfinn sem leggur grunn að því að unnt sé að móta stefnu um verndun hans. Minjastofnun Íslands hefur yfirumsjón með skráningu menningarminja með það að markmiði að samræma skráningu húsa og mannvirkja á landsvísu. Húsa- og mannvirkjaskráning skal unnin af fagaðilum er búa yfir sérþekkingu á sviði byggingarlistar og byggingarsögu, heimildaöflun og reynslu á sviði skráningar og skal skráningin vera í samræmi við leiðbeiningar Minjastofnunar Íslands.
Minjastofnun Íslands hefur gefið út reglur um skráningu jarðfastra menningarminja;fornleifa, húsa og mannvirkja, vegna skipulags og framkvæmda nr. 620/2019 þar sem skilgreindar eru kröfur Minjastofnunar um skráningu fyrir hvert skipulagsstig. Tilgangur reglnanna er að auka samræmi við skráningu jarðfastra menningarminja um allt land. Skráning jarðfastra menningarminja veitir upplýsingar um eðli og ástand menningarminja á Íslandi auk þess sem heildarsýn á umfangi þeirra stuðlar að skilvirkni við gerð skipulags og útgáfu leyfa til framkvæmda.
Kostnaður við skráningu skal greiddur af þeim sem ber ábyrgð á skipulagsgerð, sem er sveitarstjórn eða sá sem hún heimilar gerð deiliskipulags.
Einnig hefur Minjastofnun gefið út leiðbeiningaritið Húsaskráning – Huginn – Húsakönnun , þar sem gefnar eru ítarlegar leiðbeiningar um skráningu húsa og mannvirkja og gerð húsakannana. Í ritinu er gerð grein fyrir þeim kröfum sem Minjastofnun Íslands gerir um skráningu fyrir hvert skipulagsstig. Ritið er ætlað skipulagsyfirvöldum, skipulagshöfundum og þeim sem vinna að skráningu húsa og mannvirkja og gerð húsakannana.
Skráning vegna aðalskipulags
Í greinargerð með aðalskipulagi skal gera grein fyrir menningarminjum innan marka skipulagssvæðisins. Þar skal koma fram stefna sveitarfélagsins um verndun menningarminja, fornleifa, húsa og mannvirkja. Gera skal grein fyrir þekktum menningarminjum; fornleifum, húsum og mannvirkjum og sett fram markmið um verndun þeirra. Einnig skal birta sögulegt yfirlit um upphaf og þróun byggðar, þar sem greind eru helstu tímabil í sögu byggðarlagsins. Birta skal skrá yfir hús og mannvirki sem falla undir lög um menningarminjar, það er hús sem eru friðlýst, hús sem eru byggð 1923 eða fyrr og þar með friðuð vegna aldurs, og hús sem eru umsagnarskyld, þ.e. byggð á árabilinu 1924 - 1940.
Eftirfarandi skal koma fram:
- Skrá yfir friðlýst hús. Byggingarár. Staðsetning / hnit, ljósmynd. Upplýsingar um friðlýst hús eru aðgengilegar á vef Minjastofnunar.
- Skrá yfir aldursfriðuð hús, byggð 1923 eða fyrr. Byggingarár. Staðsetning / hnit, ljósmynd.
- Skrá yfir hús og kirkjur byggð á árabilinu 1924 - 1940. Byggingarár. Staðsetning / hnit, ljósmynd.
Skráning vegna deiliskipulags
Skráningin felur í sér ítarlegri skráningu en gerð er vegna aðalskipulags. Áskilið er að skráning fari fram á vettvangi, þar sem sannreynt er að byggingin standi og teknar ljósmyndir sem sýna útlit og ástand hennar á þeim tíma er skráning fer fram. Vettvangsskoðun er mikilvægur hluti skráningar og grunnur að varðveislumati sem birt er í húsakönnun. Í húsakönnun skal leggja mat á gildi húsa og mannvirkja og niðurstaða varðveislumats á að stuðla að því að ákvarðanir sem teknar verða í deiliskipulagi um verndun húsa og mannvirkja byggi á faglegum grunni.
Skráning vegna framkvæmdaleyfa
Ef veita á framkvæmdaleyfi í þegar byggðu hverfi án þess að fyrir liggi deiliskipulag skal skrá hús og mannvirki innan framkvæmdasvæðis samkvæmt reglum Minjastofnunar um skráningu húsa og mannvirkja vegna deiliskipulags.
Huginn
Við skráningu húsa og mannvirkja skal nota rafræna skráningarformið Hugin og styðjast við þær leiðbeiningar sem fram koma í ritinu Húsaskráning – Huginn – Húsakönnun . Með skráningu í Hugin verður til grunnur sem húsakönnun byggir á. Húsakönnun er byggingarlistaleg og menningarsöguleg könnun sem felst í skráningu húsa og mannvirkja sem studd er sagnfræðilegum heimildum, vettvangskönnun og mati á varðveislugildi einstakra húsa, húsasamstæða og byggðaheilda.
Huginn er unninn í forritinu FileMaker og er hægt að sækja nýjustu útgáfuna af honum hér.