Fara í efni

Viðhald minjastaða

Á Íslandi eru allar fornleifar sem eru eldri en 100 ára sjálfkrafa friðaðar og um viðhald og merkingar á þeim gilda ákveðnar reglur. Auk þeirra eru 859 minjastaðir sem hafa verið sérstaklega friðlýstir en á hverjum stað geta verið ein eða fleiri fornleifar. Um friðlýstar fornleifar gilda strangari reglur.

Ávallt skal hafa samráð við Minjastofnun Íslands um staðsetningu skilta og upplýsingar er varða bæði friðaðar og friðlýstar fornleifar. Eigendur og ábúendur jarða skulu jafnframt hlúa að fornleifum á landareignum sínum og viðhalda umhverfi þeirra eftir því sem sanngjarnt getur talist. Minjastofnun Íslands er skylt að veita ráðgjöf og leiðbeiningar í því sambandi.

Samkvæmt lögum má enginn, hvorki landeigandi, ábúandi, framkvæmdaraðili né nokkur annar, spilla, granda eða breyta, hylja, laga, aflaga eða flytja úr stað fornleifar nema með leyfi Minjastofnunar Íslands. Stofnunin gerir nauðsynlegar ráðstafanir til verndar fornleifum, viðhalds eða endurbóta, en áður skal hún gera landeiganda eða ábúanda viðvart um þær ráðstafanir. Minjastofnun Íslands ber ábyrgð á friðlýstum fornleifum og semur verk- og fjárhagsáætlun um viðhald þeirra. Friðlýstum fornleifum skal viðhaldið á kostnað ríkisins.

 

 

 

friðlýsingarmerki

friðunarmerki

Reglur um merkingar og uppsetningu skilta við friðlýstar og friðaðar fornleifar

Skilti og merki við friðlýstar fornleifar

Minjastofnun Íslands merkir friðlýsta minjastaði með þar til gerðum merkjum í samráði við eigendur.

Minjastofnun setur að öllu jöfnu upp skilti við friðlýsta minjastaði í samráði við eigendur. Minjastofnun er heimilt að fjarlægja skilti eða aðrar merkingar sé gerð þeirra eða staðsetning ekki í samræmi við reglur þessar (sbr. 22. gr. laga um menningarminjar).

Minjastofnun útbýr skilti með hliðsjón af Vegrúnu - Handbók um merkingar á ferðamannastöðum og friðlýstum svæðum.

Leitast er við að hafa fætur skiltanna úr íslensku lerki. Gerð fóta og aðferð við niðursetningu skiltanna þarf í öllum tilfellum að taka mið af hverjum stað fyrir sig. Minjastofnun gerir kröfu um að ásýnd allra skilta við friðlýsta minjastaði sé áþekk.

Merki Minjastofnunar skal vera á öllum skiltum við friðlýsta minjastaði.

skilti og merki við friðaðar fornleifar

Ávallt skal hafa samráð við Minjastofnun um staðsetningu skilta og upplýsingar er varða jarðfastar menningarminjar. Ekki má setja skilti ofan í tóftir eða aðrar fornleifar.

Skilti skal falla vel að minjastað og landslagi. Skilti skal ekki skyggja á minjastað, hús eða mannvirki.

Merki Minjastofnunar skal vera greinilegt á skiltum og merkingum sem sett eru upp við friðaðar menningarminjar. Einnig skal merki Minjastofnunar vera greinilegt á upplýsingaskiltum sem sett eru upp vegna yfirstandandi fornleifarannsókna.

Myndefni á skilti skal ekki vera nýleg ljósmynd af viðfangsefninu. Leitast skal við að bæta við upplifun og þekkingu gesta með teikningum, texta og ljósmyndum eða öðru efni sem sýnir staðinn í öðru ljósi en því sem blasir við gestinum. Slíkt efni skal senda Minjastofnun til yfirlestrar.