Fara í efni

Evrópska húsverndarárið 1975

Evrópska húsverndarárið 1975 sem haldið var að frumkvæði Evrópuráðsins (Council of Europe) átti mikinn þátt í því að auka skilning á því hve mikil áhrif byggingarlist hefur á lífsgæði og markaði jafnframt þáttaskil í varðveislustarfi víða um Evrópu – meðal annars á Íslandi. Hápunktur ársins var undirritun Amsterdam yfirlýsingarinnar með kjörorðunum „Að gefa fortíðinni framtíð“ (A Future for our Past). Í þeirri yfirlýsingu kom fram að byggingararfurinn sé sameiginlegur arfur allrar Evrópu og ekki einkamál hverrar þjóðar og að staðbundin stjórnvöld beri sérstaka ábyrgð á verndun byggingararfsins, og ætti hann að vera meginmarkmið í skipulagsgerð borga og sveita en ekki bara aukaatriði.

Ein helstu þáttaskil sem urðu hér á landi í tilefni af húsverndarárinu, voru þau að húsafriðunarsjóði var komið á fót og húsafriðunarnefnd falið að veita úr honum styrki til viðgerða og endurbyggingar gamalla húsa. Sjóðurinn hefur haft gríðarmikil áhrif á verndun og viðhald byggingararfs hér á landi allar götur síðar, með styrkjum til framkvæmdaverkefna til viðhalds á einstökum húsum, sem og framlagi til rannsókna, útgáfu og miðlunar um arkitektúr og byggingarlistasögu.

Minjastofnun Íslands ætlar að fagna þessum 50 ára tímamótum með ýmsum hætti og í samstarfi við aðrar stofnanir, einstaklinga og fyrirtæki. Þessi tímamót tengjast einnig þema Menningarminjadaga Evrópu sem stofnunin heldur utan um.

Viðburðir verða auglýstir á viðburðardagatali Minjastofnunar allt árið. Öll sem vilja standa fyrir viðburði í tengslum við menningarminjadagana geta skráð viðburði sína hér ⇒ Senda inn viðburð eða haft samband fyrir nánari upplýsingar á solrun@minjastofnun.is