Fara í efni

Steinahellir undir Eyjafjöllum

Steinahellir hefur verið notaður fyrir sauðfé af Steinabændum öldum saman. Leifar fyrirhleðslu sjást austast í hellinum innarlega. Árið 1818 var hellirinn settur þingstaður Eyfellinga og gegndi hann því hlutverki fram til 1905. Þingborðið sem var í hellinum er nú varðveitt í Skógasafni. Samkvæmt Matthíasi Þórðarsyni, fyrrverandi þjóðminjaverði, voru skip einnig smíðuð í Steinahelli. Þó er ekki vitað hvenær það var eða hvers konar skip voru smíðuð.

Að líkindum er hellirinn, sem er úr móbergi, að grunninum til náttúrusmíð en svo hefur hann verið dýpkaður og breikkaður. Til eru heimildir fyrir því að Brunna–Sveinbjörn hafi dýpkað hellinn enn meira um 1890.

Svipir, vofur og álfar hafa sést við hellinn og er frægasta sögnin tengd 14 manna áhöfn sem fórst við Fjallasand. Veturinn eftir er skipið strandaða sett upp að Steinahelli um ísilagðan Holtsós. Litlu síðar ríður Þorgils á Rauðnefsstöðum hjá hellinum og mætir þar manni sem segir: „settu með okkur lagsmaður“. Þegar Þorgils kemur nær sér hann 13 svaðalega menn standa hjá skipinu og þykist hann þekkja þar áhöfnina drukknuðu. Þorgils forðaði sér í snarhasti og er þá kveðið á eftir honum:

Ganglaust stendur gnoð í laut,

Gott er myrkrið rauða,

Halur fer með fjörvi braut,

Fár er vin þess dauða,

Fár er vin þess dauða.

 

Líklega hefur vísan verið ort í orðastað hinna drukknuðu sjómanna löngu eftir atburðinn.

Burkni vex í hellisþaki Steinahellis. Sögur herma að ekki megi slíta upp burknann því þá sé ólánið víst. Bóndi á Steinum reif þar einhverju sinni upp burkna og hrapaði kýr hans fram af hellisberginu skömmu síðar. Önnur saga segir að ferðamaður einn hafi slitið upp burkna óafvitandi um álögin og misst heilsuna fáum árum síðar. Kenndi hann burknatínslunni um heilsutap sitt.

Steinahellir var friðlýstur af Þór Magnússyni, þáverandi þjóðminjaverði, árið 1975. Steinahellir, líkt og aðrar friðlýstar menningarminjar, er í umsjá Minjastofnunar Íslands. Þil hellisins var endurgert á vegum Minjastofnunar haustið 2015, en þil var á hellinum a.m.k. á 19. öld.

English Version

 

Steinahellir Cave

For centuries Steinahellir cave was used by the farmers at Steinar farm to house sheep. In 1818 the cave became the area's parliamentary assembly site and remained so until 1905. According to Matthías Þórðarson, former National Cultural Heritage Manager, ships were at one point built at Steinahellir.

The cave is believed to be a naturally occurring feature in the palagonite cliff, but was manually deepened and broadened over time. There are many stories of supernatural happenings and enchantments connected with Steinahellir cave.

Ghosts and spirits have been seen in and around the cave for centuries; the most famous is the tale of the 14 sailors who died when their ship stranded at Fjallasandur beach. The following winter the ship was moved over the ice, from Fjallasandur, via Holtsós estuary to Steinahellir. One day Þorgils from Rauðnefsstaðir farm was riding by and exchanged some words with a man he met by the cave. He then looked up and saw 13 'horrible men' standing on the ship. Þorgils realised that this was the dead crew from the wrecked ship and rode away in haste.

One tale warns not to pick the enchanted ferns which grow in the cave as bad luck will befall anyone who does. A farmer from Steinar once picked a fern from the cave and soon afterwards one of his cows, which was grazing in the area, fell down from the top of the cave-mouth and died. Another tale tells of a traveller who picked a fern without knowing about the enchantment, and a few years later he lost his health. Until his death he blamed his misfortune on the accidental picking of the fern in Steinahellir.

The farmer Jón Jónsson was passing Steinahellir in 1870 when it was pitch dark. Suddenly a ghost appeared and blocked his way. Jón pulled out a pocket knife and made the blade turn backwards since ghosts turn everything around. By this the ghost yielded and Jón could continue his journey.

Steinahellir cave was listed as a protected archaeological site in 1975 and is under the management of the Cultural Heritage Agency of Iceland which had the wooden panel in the cave-mouth rebuilt in the fall of 2015.