Aðalgata 2, Stykkishólmi, Egilsenshús
Byggingarár: 1867
Hönnuður: Ebenezer Matthíasson snikkari.[1]
Friðað af menntamálaráðherra 15. desember 1999 samkvæmt 1. mgr. 35. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989, friðun tekur til ytra borðs.[2]
Egilsenshús er tvílyft timburhús með brotaþaki, 7,84 m að lengd og 11,55 m á breidd. Við miðja norðurhlið er einnar hæðar inngönguskúr með lágu risþaki, 2,04 m að lengd og 1,71 m á breidd. Húsið stendur á steinsteyptum sökkli, veggir eru klæddir listaþili, þak listasúð og skúrþak pappaklætt. Reykháfur er á mæni austarlega. Á húsinu eru sex rúðu krosspóstagluggar; 12 á framgafli, sex á bakgafli og fjórir á hvorri hlið. Dyr með vængjahurðum eru á annarri hæð austurgafls. Á stöfnum afmarka flatsúlur miðhluta hússins og útbrot hvorum megin, þakbrúnir eru lengri á miðhluta en á útbrotum og skreyttar randskornum vindskeiðum. Útidyr á vesturgafli eru skreyttar randskornum flatsúlum og yfir þeim og gluggum efri hæðar er brík. Tveir þríhyrndir gluggar eru á hvorum gafli útbrota. Þriggja rúðu hálfgluggi er á norðurstafni skúrs en spjaldsettar dyr á vesturhlið.