Fara í efni
Til baka í lista

Aðalstræti 46, Friðbjarnarhús

Friðlýst hús

Byggingarár: 1849

Byggingarár: Eldri hluti hússins reistur 1849.

Hönnuður: Talinn vera Ingimundur Eiríksson járnsmiður frá Rauðará við Reykjavík.[1]

Breytingar: Húsið lengt til norðurs 1859, enn síðar gert port og stór kvistur þvert yfir húsið fyrir 1916.

Hönnuðir: Ókunnir.[2]

Friðað í A-flokki af bæjarstjórn 4. október 1977 samkvæmt 2. mgr. 26. gr. og 27. gr. þjóðminjalaga nr. 52/1969.[3]

Friðað 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Friðbjarnarhús er einlyft portbyggt timburhús með risþak og háan miðjukvist sem gengur þvert í gegnum húsið, 11,8 m að lengd og 5,02 m á breidd. Við bakhlið þess er einlyft viðbygging með skúrþaki, 6,12 m að lengd og 3,96 m á breidd. Húsið stendur á steinhlöðnum og steyptum sökkli og kjallari er undir norðurhluta þess. Steinsteyptar tröppur eru upp að húsinu. Veggir eru klæddir listaþili, skúr er bárujárnsklæddur á göflum en bakhlið hans er steinhlaðin. Þök eru klædd bárujárni. Á húsinu eru 18 sex rúðu gluggar með miðpósti, sjö á framhlið, þar af tveir á kvisti, þrír á hvorum gafli og þrír á bakhlið, þar af einn á kvisti, og sinn gluggi er á hvorri hlið skúrs. Gluggaop með hlera fyrir er ofan við kvistglugga á bakhlið og fánastöng er efst á framkvisti. Kjallaradyr eru norðarlega á framhlið, útidyr með þverglugga og bjór yfir eru sunnarlega á framhlið og bakdyr eru á suðurhlið skúrs.    

Forstofa og stigi eru inn af útidyrum og snyrting inn af. Tvö herbergi eru í suðurenda hússins, eitt í miðju þess og eldhús, snyrting og gangur eru í norðurenda. Fundastofa er í skúrviðbyggingu. Upp af stiga er framloft og suðurloft, miðloft undir kvistinum og inn af því norðurstofa og tvær súðargeymslur. Veggir á jarðhæð í elsta hluta hússins eru klæddir standþiljum og er brjóstlisti negldur á þiljurnar í suðurherbergjum. Eldhús í viðbyggingu í norðurenda, snyrting og gangur eru plötuklædd og fundastofa í skúrviðbyggingu er klædd rákuðum plötum. Á jarðhæð er loft á klæddum gólfbitum en þó eru bitar óklæddir í forstofu. Í snyrtingu í norðurenda er klætt með plötum milli loftbita en loft í gangi og súð í skúrviðbyggingu eru panellædd. Á suðurlofti eru veggir klæddir standþili og listuðum standþiljum og portveggur að austanverðu er klæddur láréttum borðum. Þverþil á framlofti er klætt málningarpappír. Sléttfelld súð er á sperrum yfir framlofti upp undir mæni en skammbitaloft yfir suðurlofti. Veggir á miðlofti eru klæddir plötum og málningarpappír og loftið plötuklætt milli klæddra bita. Á norðurlofti eru veggir plötuklæddir, súð klædd plötum milli bita og skammbitaloft plötuklætt. Fremri geymsla vestan megin er ófrágengin en innri geymslan er plötuklædd á veggjum og súð en portveggur klæddur láréttum borðum.



[1]Minjasafnið á Akureyri. Hanna Rósa Sveinsdóttir. Viðtal 1999.

[2]Hjörleifur Stefánsson. Akureyri. Fjaran og innbærinn, 91-93. Torfusamtökin 1986.

[3]Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Friðunarskjal Friðbjarnarhúss.