Fara í efni
Til baka í lista

Aðalstræti 50

Friðlýst hús

Byggingarár: 1849

Húsið var fljótlega lengt til norðurs og þar var komið fyrir prentsmiðju árið 1853, viðbygging við bakhlið hússins var byggð í mörgum áföngum frá um 1886. Húsið var um tíma klætt steinajárni.

Hönnuðir: Ókunnir en Jón Chr. Stephánsson forsmiður er talinn hafa byggt norðurenda viðbyggingar um 1886.[1]

Friðað í B-flokki af bæjarstjórn 4. október 1977 samkvæmt 2. mgr. 26. gr. og 27. gr. þjóðminjalaga nr. 52/1969.[2]

Friðað 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Aðalstræti 50 er einlyft timburhús með krossreistu þaki, 12,29 m að lengd og 4,25 m á breidd. Við framhlið hússins er anddyri með skúrþaki, 2,25 m að lengd og 2,20 m á breidd, og meðfram bakhlið hússins er viðbygging með skúrþaki, 12,29 m að lengd og 3,39 m á breidd, og er hluti hennar steinsteyptur. Húsið stendur á steinhlaðinni og steyptri undirstöðu og kjallari er undir hluta hússins. Veggir eru klæddir slagþili og þök bárujárni. Reykháfur er við mæni á austurhlið þaks upp af anddyri og tveir kvistir, annar með fjögurra rúðu glugga og hinn stærri með fjögurra rúðu glugga með miðpósti. Þakgluggi er á vesturhlið. Á húsinu eru tíu sex rúðu póstgluggar, fimm á framhlið, þrír á suðurgafli og tveir á norðurgafli. Tveir gluggar eru á kjallara norðan megin anddyris. Sex gluggar sömu gerðar eru á viðbyggingu, einn á hvorum gafli og fjórir á bakhlið. Tveir þriggja rúðu gluggar eru á framhlið anddyris og ör-gluggi á hvorum gafli. Útidyr eru á miðju anddyri og að þeim steinsteyptar tröppur. Bakdyr eru á bakhlið viðbyggingar.

Inn af anddyri er forstofa og gangur inn af. Stofa er í suðurenda hússins, herbergi í miðhluta þess og annað stærra í norðurenda. Í suðurenda viðbyggingar er stofa, eldhús inn af gangi, norðan við það bakinngangur og baðherbergi og þvottaherbergi í norðurenda. Í risi er framloft upp af stiga, herbergi í suðurenda, miðloft inn af framlofti norðan megin og herbergi í norðurenda. Veggir á jarðhæð og í viðbyggingu eru plötuklæddir að innan en forstofa er klædd standþiljum og anddyri, suðurstofa og miðherbergi eru veggfóðruð. Veggir í risi eru klæddir standþili og plötum. Í anddyri er plötulædd súð, plötuklætt loft í forstofu og loft í öðrum herbergjum eru plötuklædd milli klæddra bita. Loft í stofu í viðbyggingu er plötuklætt milli klæddra bita en í herbergjum í norðurhluta eru loft ýmist klædd plötum eða panil neðan á bita. Á framlofti og miðlofti er skarsúð á sperrum en í gaflherbergjum er klætt með plötum milli sperra.

Ofan við húsið er bárujárnsklædd skúrbygging með skúrþaki og önnur mun minni með lágu risþaki sunnan við hana.  



[1]Hjörleifur Stefánsson. Akureyri. Fjaran og innbærinn, 94-95. Torfusamtökin 1986.

[2]Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Friðunarskjal Aðalstrætis 50 á Akureyri.