Aðalstræti 52
Byggingarár: 1840
Byggingarár: Líklega reist 1840.
Athugasemd: Suðurhluti hússins talinn fluttur til Akureyrar 1840 frá Skjaldarvík en norðurhluti reistur 1860. Húsið var um tíma klætt steinajárni.[1]
Hönnuðir: Ókunnir.
Breytingar: Viðbygging reist við bakhlið hússins 1988.
Hönnuður: Hjörleifur Stefánsson arkitekt.[2]
Friðað í B-flokki af bæjarstjórn 4. október 1977 samkvæmt 2. mgr. 26. gr. og 27. gr. þjóðminjalaga nr. 52/1969.[3]
Friðað 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.
Aðalstræti 52 er einlyft timburhús með krossreistu þaki, 12,71 m að lengd og 6,14 m á breidd. Við bakhlið hússins er tengibygging við einlyfta nýbyggingu með risþaki og norðvestan við húsið er bílskúr. Gamla húsið stendur á steinhlöðnum og steyptum sökkli og kjallari er undir miðhluta þess. Veggir eru klæddir listaþili og þak er bárujárnsklætt. Skorsteinn er á mæni upp af útidyrum, þakgluggi er hvorum megin á þaki og lítill kvistur með fjögurra rúðu glugga er á þakinu vestan megin. Á húsinu eru 15 sex rúðu gluggar með miðpósti; sex á framhlið, þrír á suðurgafli, fjórir á bakhlið og tveir á norðurgafli. Tveggja rúðu gluggi er á hvorri gaflhyrnu og þvergluggi á kjallara með fjórum rúðum. Útidyr eru sunnarlega á framhlið og fyrir þeim vængjahurðir á okum og spjaldsett hurð með fjórum smáðum rúðum efst. Að dyrum eru trétröppur.
Inn af dyrum er forstofa, stigi, hlaðinn reykháfur og stofa eru í miðhluta hússins og er hún opin inn í tengibyggingu við bakhlið. Tvær stofur eru í suðurenda og tvö herbergi í norðurenda. Upp af stiga er framloft og baðherbergi og eitt herbergi við hvorn gafl. Veggir á jarðhæð eru klæddir standþiljum en stofa í suðausturhluta er klædd brjótsþili með sneiddum spjöldum að neðan og standþiljum að ofan. Í forstofu, miðstofu og norðvesturherbergi er loft á bitum en í suðurstofum og norðausturherbergi er plötuklætt milli bita. Bitar eru klæddir nema í forstofu. Þeir eru styrktir með lektum ofanfrá og á þeim eru ný gólfborð rishæðar. Gaflherbergi sunnan megin á loftinu er klætt standþili og standsúð en önnur herbergi uppi eru klædd sneiddum panelborðum, veggir, súð og hanabjálkar. Húsið er málað að innan nema forstofa og gaflherbergi sunnan megin.
[1]Hjörleifur Stefánsson. Akureyri. Fjaran og innbærinn, 96-97. Torfusamtökin 1986.
[2]Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn, Aðalstræti 52, Akureyri.
[3]Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Friðunarskjal Aðalstrætis 52 á Akureyri.