Aðalstræti 66, Indriðahús
Byggingarár: 1843
Byggingarár: 1842.
Athugasemd: Barnaskóli 1872–1877.
Breytingar: Stór miðjukvistur smíðaður á austurhlið um 1880.[1]
Hönnuðir: Ókunnir.
Friðað 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.
Aðalstræti 66 er einlyft timburhús með krossreistu þaki, 9,50 m að lengd og 6,91 m á breidd. Miðjukvistur með risþaki gengur fram úr framhlið hússins, 3,25 m að lengd og 0,83 m á breidd. Bakdyraskúr með skúrþaki er við bakhlið, 2,32 m að lengd og 2,55 m á breidd. Húsið stendur á steinsteyptum sökkli og veggir eru klæddir strikaðri og plægðri vatnsklæðningu. Þök eru bárujárnsklædd og á vesturhlið er kvistur með skúrþaki og sex rúðu glugga með miðpósti. Tíu sex rúðu gluggar með miðpósti eru á húsinu; þrír á framhlið, þar af einn á miðjukvisti, þrír á hvorum stafni og einn á bakhlið. Á hvorum stafni eru að auki tveir fjögurra rúðu gluggar og einn tveggja rúðu gluggi efst. Lítill gluggi er á vesturhlið skúrs. Útidyr eru á miðjukvisti og bakdyr á bakhlið og á norðurgafli skúrs.
Inn af dyrum er forstofa og gangur þvert í gegnum húsið að bakdyraskúr. Stofa er í suðurenda hússins og herbergi og eldhús í norðurenda. Baðherbergi er í bakdyraskúr. Stigi er í eldhúsi og upp af honum framloft og snyrting. Súðarherbergi er við suðurgafl, tvö við norðurgafl og herbergi í kvisti. Veggir í herbergjum á jarðhæð eru plötuklæddir og í þeim er loft á bitum en panelklædd súð í bakdyraskúr. Risloft er ófrágengið, veggir og súð eru óklædd en milliveggir eru úr listuðum standþiljum. Kvistherbergi er panelklætt.
[1]Hjörleifur Stefánsson. Akureyri. Fjaran og innbærinn, 104-105. Torfusamtökin 1986; Minjasafnið á Akureyri. Hanna Rósa Sveinsdóttir. Viðtal 1999.