Aðalstræti 8, Ísafirði, Jónassenshús (Grimmakot), Miðkaupstað
Byggingarár: 1845
Breytingar: Hækkað í tvær hæðir fyrir 1917,[1] skúr var síðar reistur við bakhlið og húsið var lengt til suðurs árið 1933.[2]
Hönnuðir: Ókunnir.
Athugasemd: Suðurendi hússins er ekki friðaður.
Friðað 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.
Aðalstræti 8 er tvö sambyggð hús, 17,6 m að lengd.
Norðurhluti hússins, Jónassenshús, er tvílyft timburhús með lágu risþaki og með einnar hæðar skúrbyggingu með skúrþaki við bakhlið, 8,5 m að lengd og 7,5 m á breidd en efri hæð er 3,8 m breidd. Við norðurgafl hússins er einnar hæðar skúrbygging með skúrþaki, 3,2 m á lengd og 7,5 m á breidd. Húsið stendur á steinsteyptum sökkli. Veggir og þök eru klædd bárujárni en bakhlið er einnig klædd sléttjárni. Á framhlið eru sjö krosspóstagluggar, á skúr eru fjórir gluggar með miðpóst og þrír fjögurra rúðu póstagluggar á efri hæð bakhliðar. Á vesturhlið skúrs er krosspóstagluggi, tveir einnar rúðu gluggar á norðurhlið og stórar vængjahurðir á austurhlið. Útidyr eru á framhlið og aðrar gegnt þeim á skúr.
Inn af útidyrum er forstofa, stigi upp á loft og gangur þvert í gegnum húsið. Tvær stofur eru í suðurenda, eldhús norðan megin gangs að vestanverðu en geymsla, kynding og baðherbergi bakatil norðan megin. Á efri hæð er kames upp af stiga og herbergi í hvorum enda hússins. Veggir eru klæddir plötum nema hluti kamessins sem er klæddur standþili og strikuðum panil. Á jarðhæð er loft á klæddum bitum og er ýmist klætt á milli bita með plötum eða málningarpappír en á efri hæð er slétt borðaklætt loft.
Suðurhluti hússins er í sama formi og norðurhlutinn en við bakhlið eru tveir misbreiðir skúrar en enginn skúr við gafl. Húsið er 6,0 m að lengd og 6,2 m á breidd og klætt bárujárni. Á því eru fjórir krosspóstagluggar og þrír tvípósta krossgluggar.[1]Elísabet Gunnarsdóttir og Jóna Símonía Bjarnadóttir. Húsakönnun á Ísafirði 1992-1993, 33. Handrit 1993.
[2]Fasteignaskrá Íslands.