Fara í efni
Til baka í lista

Ægisíða 45, Garðar

Garðar, Ægisíðu 45
Friðlýst hús

Byggingarár: 1882

Byggingarár: 1882-1883

Friðun

Friðað af mennta- og menningarmálaráðherra 13. ágúst 2012, með vísan til 1. mgr. 4. gr. laga um húsafriðun, nr. 104/2001. Friðunin nær til ytra byrðis hússins.

Byggingarefni

Steinhlaðið hús.

Þórður Guðmundsson eignaðist Garða (eða Garðana eins og venjan var að segja) við Skerjafjörð á seinni hluta 19. aldar og stundaði þar búskap og útgerð. Þó jörðin væri rýr efnaðist Þórður sæmilega því hann var aflamaður og annálaður fyrir dugnað. Árið 1882 byggði hann hið reisulega steinhlaðna íbúðarhús sem stendur þar enn. Árið 1888 skipti Þórður við Egil Egilsen, son Sveinbjarnar Egilssonar og bróður Benedkts Gröndal, á Görðum og stórhýsinu Glasgow sem stóð við Vesturgötu. Egill var ekki mikill búmaður og gengu ýmsar miður góðar sögur um heimilisbraginn í Görðum. Árið 1892 tók Sigurður Jónsson skipstjóri frá Skildinganesi Garða á leigu og keypti þá tveimur árum seinna. Sigurður var mikill athafnamaður til sjós og lands, stækkaði tún, lét leggja veg upp á Grímsstaðaholt, keypti skip, hlóð bryggju, byggði fiskverkunarhús og útihús. Sigurður bjó í Görðum til dauðadags árið 1956 og var ævinlega kenndur við Garða, fyrst með Ólöfu Kristínu Guðmundsdóttir (d. 1901) og síðan Guðrúnu Pétursdóttur, sem var bróðurdóttir Ólafar. Hún bjó í Görðum til ársins 1959 og enn er húsið í eigu afkomenda Sigurðar.

 

Þegar húsið var brunavirt árið 1916 hafði Sigurður Jónsson gert miklar endurbætur á húsinu. Þá kom fram að húsið var þiljað að innan og fyllt á milli með mosa. Á neðri hæðinu voru tveir ofnar og ein eldavél, þrjú herbergi, eldhús og gangur, sem ýmist voru máluð eða veggfóðruð. Uppi var einn ofn og fjögur herbergi og gangur. Kjallari var undir öllu húsinu með steingólfi. Hann var hólfaður í þrennt með milliveggjum úr timbri. Við norðurhlið hússins var þá nýbyggður inngönguskúr úr timbri, þiljaður að innan og málaður.

 

Heimildir:

Freyja Jónsdóttir (1995, 27. október). Garðarnir við Ægisíðu. Tíminn, bls. 7. 

Húsaskrá Minjasafns Reykjavíkur. 

Páll Líndal (1991). Reykjavík. Sögustaður við Sund. Reykjavík: Bókaútgáfan Örn og Örlygur hf. 

Sigurður Jónsson (1952). Sigurður í Görðum. Sjógarpurinn og bóndinn. Skráð af Vilhjálmi S. Vilhjálmssyni. Reykjavík: Norðri. 

Sigurður Jónsson Görðum. Sótt 24. október 2013 af http://skildinganes.homestead.com/Afkomendur.html.

 

Sjá loftmynd.