Akrakirkja, Mýrar
Byggingarár: 1900
Byggingarár: 1899–1900.
Hönnuður: Guðmundur Jakobsson forsmiður.[1]
Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.
Akrakirkja er timburhús, áttstrend að grunnfleti, 10,85 m að lengd og 6,55 m á breidd. Hliðarveggir eru 6,60 m að lengd, hornsneiðingar eru 2,80 m að lengd en framhlið og kórbak 2,90 m á breidd. Þakið er krossreist og upp af vesturstafni er áttstrendur burstsettur turn með áttstrenda spíru. Oddbogadregið hljómop er á framhlið turns og undir turni er breiður stallur. Kirkjan er bárujárnsklædd en turn og turnþök klædd sléttu járni og hún stendur á steinhlöðnum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír smárúðóttir gluggar úr steypujárni, oddbogadregnir að ofan, einn á hverri hinna fjögurra hornsneiðinga, einn á framstafni kirkju og að auki hringgluggi yfir honum. Fyrir kirkjudyrum eru vængjahurðir og oddbogagluggi yfir þeim.
Inn af dyrum er forkirkja og í henni stigi til sönglofts yfir forkirkju og fremsta hluta framkirkju. Að framkirkju eru spjaldsettar vængjahurðir og gangur inn af þeim og bekkir hvorum megin hans. Kór er hafinn yfir kirkjugólf um þrjú þrep. Veggir eru klæddir málningarpappa og marmaramálaðir. Á mörkum framkirkju og kórs eru þrír oddbogar og undir þeim tvær stoðir og sín hálfstoð við hvorn vegg. Hálfstoðir eru hvorum megin altaris. Milli stoða í kór eru oddbogar og oddbogahvelfingar og yfir frambrún sönglofts eru þrír oddbogar. Reitaskipt og stjörnusett oddbogahvelfing er yfir innri hluta framkirkju en flatt loft yfir sönglofti.[1]Hörður Ágústsson. Íslensk byggingararfleifð I. Ágrip af húsagerðarsögu 1750-1940, 259. Reykjavík 1998; Embætti Húsameistara. Akrakirkja á Mýrum. Greinargerð, 1983; Sigríður Björk Jónsdóttir. Kirkjur Íslands 14, Akrakirkja, 12-28. Reykjavík 2009.