Alþingisgarðurinn, Kirkjustræti 14

Byggingarár: 1893
Friðun
Friðlýst af umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra 18. nóvember 2024 með vísan til 3. mgr. 18. gr. laga nr. 80/2012 um menningarminjar. Friðlýsingin tekur til Alþingisgarðsins í þeirri mynd sem hann hefur varðveist, skipan stíga, beða, trjágróðurs og tegundaflóru innan hvers reits, minnisvarða, hleðslna og yfirborðsefna ásamt veggjahleðslunni umhverfis garðinn.
Alþingisgarðurinn við Kirkjustræti 14 í Reykjavík er elsti og best varðveitti almenningsgarður við opinbera byggingu á Íslandi. Hann markar tímamót í íslenskri garðsögu þar sem hann er fyrsti garðurinn sem var hannaður áður en framkvæmdir við hann hófust. Varðveitt er teikning eftir Tryggva Gunnarsson alþingismann þar sem hann sýnir hvar hinar ýmsu plöntutegundir eru staðsettar. Alþingi samþykkti byggingu garðsins árið 1893 og hófust framkvæmdir þá um haustið. Var þeim að mestu lokið ári síðar. Tryggvi stóð fyrir verkinu en hann hafði áður haft umsjón með byggingu Ölfusárbrúar og komið að byggingu Alþingishússins.