Fara í efni
Til baka í lista

Árbæjarkirkja, Holta- og Landsveit

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1887

Hönnuður: Talinn vera Hjörtur Oddsson snikkari og bóndi í Eystri-Kirkjubæ.

Breytingar: Veggir voru í upphafi timburklæddir og þak bárujárnsklætt. Suðurhlið var klædd bárujárni 1923, veggir múrhúðaðir 1948-1949 og loks klæddir bárujárni á árunum 1971-1973. Árið 1958 var þiljaður kórbogi innan á kórgafl, veggir klæddir masónítplötum yfir upprunalegt spjaldaþil og smíðuð reitaskipt hvelfing úr sama efni neðan á upprunalega borðaklæðningu.[2]

Hönnuðir: Ókunnir.

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Árbæjarkirkja er timburhús, 10,31 m að lengd og 5,71 m á breidd. Þakið er krossreist og upp af framstafni er ferstrendur turn með risþaki og mjór stallur undir. Kirkjan er bárujárnsklædd og stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír bogadregnir gluggar, einn minni yfir kirkjudyrum og lítill gluggi á framstafni turns. Í þeim er T-laga póstur, tvær rúður neðan þverpósts en þrjár yfir á milli tveggja skásettra pósta. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir.

Inn af kirkjudyrum er gangur og bekkir hvorum megin hans. Lágt kórþil er á mörkum framkirkju og kórs, klætt spjaldaþili að neðan en renndum pílárum að ofan. Ferstrendir kórstafir eru í kórdyrum og hnöttur efst. Kórþilsveggur með boga er innst í kór yfir altari og afþiljaðir klefar með dyrum hvorum megin þess. Söngloft á bitum og tveimur stoðum er yfir fremsta hluta framkirkju og stigi við framgafl sunnan megin. Tvær turnstoðir eru á loftinu. Veggir eru klæddir sléttum plötum. Yfir innri hluta framkirkju og kór er reitaskipt stjörnusett hvelfing. Yfir sönglofti er reitaklætt súðarloft en flatt loft undir turni. 



[1]ÞÍ. Bps. C, V. 62. Bréf 1888. Reikningur yfir byggingarkostnað Árbæjarkirkju í Holtum sumarið 1887.

[2]Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Árbæjarkirkja í Holtum.