Fara í efni
Til baka í lista

Bænhús, Núpsstað, Skaftárhreppi

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1657

Byggingarár: Um 1850.[1]

Hönnuður: Ókunnur.

Í vörslu Þjóðminjasafns Íslands frá 1930.[2]

Tekið á fornleifaskrá 25. október 1930 samkvæmt 5. gr. laga um verndun fornmenja nr. 40/1907 og þinglýst 28. maí 1931.

Tekið aftur á fornleifaskrá 28. mars 1961 samkvæmt 2. gr. laga um viðhald fornra mannvirkja og um byggðasöfn nr. 8/1947 en ekki þinglýst og friðlýsingin því ógild sbr. 6. gr. laga um verndun fornmenja nr. 40/1907, en sú frá 1931 er í fullu gildi.[3]

Friðað 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Bænhúsið á Núpsstað er torf- og timburhús, torftóftin er um 9 m að lengd og 7,5 m á breidd en timburhúsið 6,15 m að lengd og 2,50 m á breidd. Þakið er krossreist og lagt torfi. Hliðarveggir og kórbak, upp undir glugga, eru hlaðin úr torfi og grjóti. Kórbaksþilið yfir torfvegg og allur framstafninn eru klædd slagþili. Á kirkjunni eru tvöfaldar vindskeiðar með afturáslætti að ofan. Á kórbaki er póstgluggi með tveimur tveggja rúðu römmum og uppi á framstafninum yfir kirkjudyrum er lítill tveggja rúðu gluggi. Fyrir kirkjudyrum er spjaldahurð.

Inn af kirkjudyrum er framkirkja og í henni hellulagt gólf og veggbekkur hvorum megin. Kórþil er á mörkum framkirkju og kórs klætt þiljum að neðan er randskornum grindum að ofan upp undir þverslá. Kórgólf er klætt borðum og hafið yfir kirkjugólf um tvö þrep. Laus bekkur er hvorum megin í kór, altari undir kórbaksglugga en hvorki grátur né prédikunarstóll eru í bænhúsinu. Veggir framkirkju og kórs eru klæddir breiðum þiljum en kórgafl reitaþiljum. Yfir fremsta hluta framkirkju er loft á bitum en skarsúð á sperrum yfir innri hlutanum og kór. Húsið er ómálað að innan.



[1]Hörður Ágústsson.Íslensk byggingararfleifðI, 85. Reykjavík 2000; Sjá þó Gísli Gestsson: Gamla bænhúsið á Núpsstað, 61-84. Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1961. Þar telur Gísli að bænhúsið sé frá miðri 17. öld.

[2]Kristján Eldjárn. Hundrað ár í Þjóðminjasafni, 99. Reykjavík 1962.

[3]Ágúst Ó. Georgsson. Fornleifaskrá 1990, 54.