Fara í efni
Til baka í lista

Barðskirkja, Fljót

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1888

Hönnuður: Gísli P. Sigmundsson forsmiður frá Ljótsstöðum á Höfðaströnd.

Saga

Ekki er ljóst hvenær kirkja var fyrst reist á Barði en líklega hefur það verið í árdögum kristni á Íslandi. Elsta ritaða heimild um kirkju á Barði er Auðunarmáldagi frá um 1318. Kirkjan var helguð heilögum krossi og Ólafi helga í kaþólskum sið. Núverandi kirkja var reist í stað eldri timburkirkju.

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

Lýsing

Barðskirkja er timburhús, 10,19 m að lengd og 5,76 m á breidd, með forkirkju undir minna formi, 3,08 m að lengd og 3,80 m á breidd. Þök eru krossreist og upp af framstafni er ferstrendur turn með lágt píramítaþak. Undir honum er stallur, sjónarmun breiðari. Kirkjan er klædd listaþili og stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír gluggar og einn á framstafni forkirkju. Í þeim er krosspóstur og rammar með sex rúðum. Einnar rúðu gluggi er á framstafni kirkju hvorum megin forkirkju og tveggja rúðu gluggi á framhlið turns. Á norðurhlið forkirkju eru kirkjudyr og fyrir þeim vængjahurðir.

Í forkirkju eru spjaldsettar vængjahurðir að framkirkju og þverþil sunnan megin. Inn af þeim er gangur og aftursættir þverbekkir hvorum megin hans en veggbekkir umhverfis í kór. Söngloft er yfir fremri hluta framkirkju og stigi við vesturgafl norðan megin. Fjórar súlur eru undir þverbitum loftsins og tvær turnstoðir uppi. Veggir kirkju eru klæddir strikuðum panelborðum og eru þeir ómálaðir sem og gluggarnir. Efst á veggjum er sylla, ávöl á framhlið en strikuð á brúnum. Yfir kirkju stafna á milli er panelklædd  stjörnusett hvelfing.

Heimild

Kirkjur Íslands, 6. bindi, Reykjavík 2005. bls. 9-34