Barðskirkja, Fljót
Byggingarár: 1888
Hönnuður: Gísli P. Sigmundsson forsmiður frá Ljótsstöðum á Höfðaströnd.[1]
Breytingar: Í öndverðu var pappi á þaki kirkjunnar en það var bárujárnsklætt skömmu fyrir 1905.
Forkirkja var smíðuð við kirkjuna 1915. Hönnuður: Jón Sigmundsson snikkari frá Krákuvöllum.[2] Á árunum 1975–1988 var unnið að viðgerð kirkjunnar. Var þá í ýmsu vikið frá upphaflegum frágangi svo sem klæðningu veggja utan og innan og í gluggasmíði.[3]
Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.
Barðskirkja er timburhús, 10,19 m að lengd og 5,76 m á breidd, með forkirkju undir minna formi, 3,08 m að lengd og 3,80 m á breidd. Þök eru krossreist og upp af framstafni er ferstrendur turn með lágt píramítaþak. Undir honum er stallur, sjónarmun breiðari. Kirkjan er klædd listaþili og stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír gluggar og einn á framstafni forkirkju. Í þeim er krosspóstur og rammar með sex rúðum. Einnar rúðu gluggi er á framstafni kirkju hvorum megin forkirkju og tveggja rúðu gluggi á framhlið turns. Á norðurhlið forkirkju eru kirkjudyr og fyrir þeim vængjahurðir.
Í forkirkju eru spjaldsettar vængjahurðir að framkirkju og þverþil sunnan megin. Inn af þeim er gangur og aftursættir þverbekkir hvorum megin hans en veggbekkir umhverfis í kór. Söngloft er yfir fremri hluta framkirkju og stigi við vesturgafl norðan megin. Fjórar súlur eru undir þverbitum loftsins og tvær turnstoðir uppi. Veggir kirkju eru klæddir strikuðum panelborðum og eru þeir ómálaðir sem og gluggarnir. Efst á veggjum er sylla, ávöl á framhlið en strikuð á brúnum. Yfir kirkju stafna á milli er panelklædd stjörnusett hvelfing.
[1]ÞÍ. Biskupsskjalasafn C. V, 173. Bréf 1890. Byggingarreikningur Barðskirkju 1888–1889.
[2]ÞÍ. Skjalasafn prófasta. Skagafjarðarprófastsdæmi AA/12, 13, 14 og 15. Barð 1889, 1905, 1907, 1911 og 1914.
[3]Þórir Stephensen. Kirkjur Íslands 6, Barðskirkja, 11–22. Reykjavík 2005.