Fara í efni
Til baka í lista

Bergstaðakirkja, Bólstaðarhlíðarhreppur, A-Húnavatnssýsla

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1883

Hönnuður: Þorsteinn Sigurðsson forsmiður.[1]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Bergsstaðakirkja er timburhús, 9,34 m að lengd og 6,17 m á breidd. Þakið er krossreist, klætt bárujárni og á því hálfvalmi upp af kórbaki. Upp af vesturstafni en hár og breiður stallur með ferstrent þak upp að turni með píramítaþak. Turnþök eru klædd sléttu járni. Kirkjan er klædd listaþili og stendur á steinhlöðnum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír gluggar, tveir sömu stærðar á kórbaki en minni gluggi ofarlega á hvorum stafni og lítill gluggi á framhlið turnstalls. Í þeim er miðpóstur og tveir fjögurra rúðu rammar. Hljómop með hlera og skásettum litlum glugga er á hverri hlið turns. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar spjaldsettar vængjahurðir, hálfsúlur hvorum megin og bjór yfir.

Inn af dyrum er gangur inn kirkju, aftursættir þverbekkir hvorum megin hans en veggbekkir í kór að altari. Afþiljað loft á bitum er yfir fremri hluta framkirkju og stigi við framgafl norðan megin. Veggir eru klæddir sléttum plötum yfir upprunalegar þiljur en brjóstlisti er undir gluggum umhverfis kirkjuna. Strikasylla er efst á veggjum yfir innri hluta framkirkju og kór og plötuklædd reitaskipt hvelfing yfir.



[1]Hjörleifur Stefánsson. Kirkjur Íslands 8. Bergsstaðakirkja, 45-62. Reykjavík 2006.