Fara í efni
Til baka í lista

Bergstaðastræti 24, Bjargarsteinn

Bergstaðstræti 24
Friðlýst hús

Byggingarár: 1884

Friðun

Friðað af mennta- og menningarmálaráðherra 24. nóvember 2011 með vísan til 1. mgr. 4. gr. laga um húsafriðun, nr. 104/2001. Friðun nær til ytra byrðis hússins.


Húsið var fyrst virt í ágúst árið 1884 og var þá lýst sem húsi með steinveggjum. Þá var búið að hólfa það í sundur í fjögur herbergi sem voru þó enn í smíðum. Lítill kjallari er sagður vera undir suðurgafli hússins. Í desember sama ár var búið að endurbæta húsið og voru þá í því sjö herbergi máluð, auk eldhúss og búrs. Aðfararnótt 11. nóvember 1887 kom upp eldur í húsinu og 7. febrúar 1888 voru skemmdir kannaðar. Virðingamenn merktu að eldurinn hefði komið upp á nokkrum stöðum samtímis í húsinu. Einnig var búið að fjarlægja þiljur og hurðir sem voru í húsinu þegar það var virt 1884. Húsið var virt á ný í júlí 1888 og var þá búið að gera á því endurbætur eftir brunann. Það er þá sagt vera með steinveggjum lögðum í kalk. Stærðir eru þær sömu og áður. Árið 1905 var enn búið að gera umbætur á húsinu. Þá er það sagt byggt af steini en stafnar af timbri og járnvarðir. Þá er jafnframt virtur inngönguskúr við vesturhlið hússins, byggður af bindingi. Árið 1924 er einnig virtur inngönguskúr við austurhlið hússins. Hann kemur ekki fram í virðingum sem fylgja á eftir en í hans stað er talað um geymsluskúr við austurhlið hússins úr bindingi. Í mati frá 1978 kemur fram að ýmsar endurbætur hafi átt sér stað frá síðasta mati, veggir hafi verið viðarklæddir, nýtt gólf sett í húsið og ný raflögn. Ekki virðast síðan hafa verið gerðar frekari breytingar á húsinu.

Heimild:

Húsaskrá Minjasafns Reykjavíkur.


Sjá á loftmynd.