Fara í efni
Til baka í lista

Bessastaðakirkja, Bessastaðir

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1777

Byggingarár: 1777-1795 en lokið við að byggja turn 1823.

Hönnuður: Andreas Peter Pfützner (1741-1793). 

Breytingar: Kirkjunni gjörbreytt að innan 1946-1948.

Hönnuður: Guðjón Samúelsson arkitekt.[1]

Friðuð í B-flokki af menntamálaráðherra 11. janúar 1977 samkvæmt 1. mgr. 26. gr. og 27. gr. þjóðminjalaga nr. 52/1969.[2]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Bessastaðakirkja er steinhlaðið hús, 22,50 m að lengd og 10,70 m á breidd, með turn við framstafn, 4,94 m að lengd og 5,80 m á breidd. Risþak er á kirkju lagt þaksteinum. Turninn er ferstrendur og á honum eirklætt píramítaþak. Veggir eru múrhúðaðir en steinhleðslan skín í gegn, sökkulbrún er á þeim neðarlega og múrbrún undir þakskeggi turns. Undir þakskeggi kirkju er timburklætt þakskegg prýtt strikuðum borðum og listum og tvöfaldar vindskeiðar á stöfnum, strikaðar á brúnum. Á hvorri hlið eru fjórir bogadregnir gluggar með steindu gleri. Dyr og gluggar sem múrað hefur verið upp í eru á hvorri hlið kirkju. Tveir litlir bogagluggar eru á þremur hliðum turns. Kirkjudyr eru í djúpu opnu anddyri, burstlaga að ofan, og fyrir þeim vængjahurðir.

Í forkirkju er stigi upp í turn og spjaldsett vængjahurð að framkirkju. Inn að þeim er gangur og bekkir hvorum megin hans. Orgelpallur er fremst í framkirkju norðan megin en söngpallur sunnan megin. Veggir eru múrhúðaðir og glugghús eru bogadregin að ofan og ná niður að gólfi. Flatt loft á bitum er yfir kirkjunni stafna á milli.


Bessastaðakirkja, tillaga að endurgerð kirkjunnar hið innra.  Greinargerð - Myndband




[1] Finsen, Helge, og Hiort, Esbjørn. Steinhúsin gömlu á Íslandi. Kristján Eldjárn þýddi. Reykjavík 1978; Þorsteinn Gunnarsson. Kirkjur Íslands 12. Bessastaðakirkja, 155-178. Reykjavík 2008.

[2] Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Friðunarskjal Bessastaðakirkju.