Fara í efni
Til baka í lista

Bíldudalskirkja, Við Kirkjutorg

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1906

Byggingarár: 1905–1906.

Hönnuður: Rögnvaldur Ólafsson arkitekt.[1]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Bíldudalskirkja er steinsteypuhús, 12,64 m að lengd og 8,87 m á breidd, með tvískiptan stöpul við framstafn, sem snýr í austur, 2,61 m að lengd og 3,54 m á breidd. Stallur er á miðjum stöpli en efst er áttstrendur burstsettur turn með spíru upp af. Á hornum turns eru hálfsúlur en blindgluggar málaðir á hliðar. Þak kirkju er krossreist og klætt bárujárni en turn klæddur sléttu járni. Veggir eru múrhúðaðir og steinhleðsla dregin í yfirborðið; stórgerð upp undir glugga en smágerðari ofar. Sökkulbrún er við gólfhæð, múruð vindskeið undir þakbrúnum en múrbrún undir þakskeggi og leidd fyrir framgafl og stöpul. Á hvorri hlið kirkju eru fjórir bogdregnir smárúðóttir gluggar úr steypujárni, tveir minni ofarlega á framstafni kirkju og tveir á framhlið stöpuls. Fyrir kirkjudyrum eru hlífðarhurðir sem rennt er til hliðar en vængjahurðir innar.

Í forkirkju er stigi upp á söngloft yfir fremsta hluta framkirkju. Að framkirkju eru spjaldsettar vængjahurðir og bekkir hvorum megin gangs. Prédikunarstóll með himinn yfir er innst í kór norðan megin en afþiljað skrúðhús í horninu innan hans. Framgafl er plötuklæddur en aðrir veggir múrhúðaðir. Efst á þeim er strikasylla sem leidd er fyrir kórgafl að skoruðum flatsúlum hvorum megin altaris en upp af þeim er bogi. Yfir kirkjunni stafna á milli er borðaklædd stjörnuskreytt hvelfing.


[1]Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Bíldudalskirkja; Hörður Ágústsson. Íslensk byggingararfleifð I. Ágrip af húsagerðarsögu 1750-1940, 395. Reykjavík 1998.