Bjargarstígur 17
Byggingarár: 1879
Byggingarár
1879-1885
Byggingarefni
Steinbær
Friðun
Friðað af mennta- og menningarmálaráðherra 24. nóvember 2011, með vísan til 1. mgr. 4. gr. laga um húsafriðun, nr. 104/2001. Friðun nær til ytra byrðis hússins.
Ekki er hægt að fullyrða með nákvæmni um byggingarár þessa hús. Bærinn er talin vera byggður á tímabilinu 1879 til 1885. Dóróthea og Jóhann Heilmann, tómthúsmenn, bjuggu að Vegamótabrú árið 1879 en árið 1885 búa þau í Heilmannsbæ en svo var þetta hús kallað. Þau hafa því byggt Heilmannsbæ einhvern tímann á þessu sex ára tímabili. Sonur þeirra Vilhelm kaupir bæinn 1895 og lengir hann ári seinna og byggir við hann skúr. Árið 1896 var húsið virt í fyrsta sinn og eru þær heimildir notaðar þegar fjallað er um upphaflega gerð hússins. Þá er það sagt byggt með steinveggjum og timburstöfnum járnklæddum.
Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á bænum í gegnum árin. Árið 1924 var byrjað á viðbyggingu norðan við húsið sem kölluð var smíðaskúr. Við þennan skúr var byggt árið 1941 og gluggum breytt. Inngöngudyr voru settar á suðurhlið árið 1938. Þá voru einnig póstar teknir úr gluggum á gafli og suðurhlið. Árið 1964 var byggt þvottahús úr steinsteypu við norðvesturhlið hússins.
Heimild:
Húsaskrá Minjasafns Reykjavíkur.