Bjarnarhafnarkirkja, Helgafellssveit
Byggingarár: 1856
Byggingarár: 1856–1858.
Hönnuður: Sigurður Sigurðsson forsmiður í Grundarfirði.[1]
Breytingar: Í upphafi var þak gaflsneitt við austurstafn og strýtumyndaður þakturn við vesturstafn. Hann var tekinn ofan um aldamótin 1900.[2] Gaflsneiðing var tekin af kirkjunni um 1950.[3]
Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.
Bjarnarhafnarkirkja er timburhús, 7,09 m að lengd og 4,56 m á breidd. Þakið er krossreist og klætt bárujárni en veggir slagþili og kirkjan stendur á steinhlöðnum sökkli. Á hvorri hlið kirkjunnar eru þrír gluggar. Í fremsta glugga hvorum megin er sex rúðu rammi en þriggja rúðu rammi í innri gluggunum. Uppi á framstafni, yfir dyrum, er þriggja rúðu gluggi, heldur minni. Fyrir kirkjudyrum er okahurð og yfir henni klassískur skrautumbúnaður um bænaspjald.
Inn af kirkjudyrum er mjó forkirkja þiljuð af framkirkju með þverþili. Stigi er norðan megin upp á afþiljað loft yfir framkirkju og vængjahurð á þverþilinu að framkirkju. Inn af dyrum er gangur og bekkir hvorum megin hans en bekkir umhverfis í kór að altari. Bök bekkja eru klædd niður í gólf og innstu bekkir tvísættir. Prédikunarstóll er í innsta bekk sunnan megin. Veggir forkirkju eru klæddir spjaldaþili og texplötum. Í framkirkju og kór eru veggir klæddir plötum og málningarpappa en neðsti hluti þeirra, upp undir setfjalir bekkja, er klæddur þiljum. Yfir framkirkju og kór er oddbogalöguð hvelfing klædd plötum og málningarpappa.[1]ÞÍ. Skjalasafn prófasta. Snæfellsnessprófastsdæmi AA/3. Bjarnarhöfn 1856, 1857, 1858 og 1860; ÞÍ. Biskupsskjalasafn C, V 110A. Bréf 1863. Summariskur reikningur yfir byggingu Bjarnarhafnarkirkju ásamt fjórum fylgiskjölum.
[2]ÞÍ. Skjalasafn prófasta. Snæfellsnessprófastsdæmi AA/6. Bjarnarhöfn 1901.
[3]ÞÍ. Skjalasafn prófasta. Snæfellsnessprófastsdæmi AA/9. Bjarnarhöfn 1952; Guðmundur L. Hafsteinsson. Kirkjur Íslands, Bjarnarhafnarkirkja, handrit 2009.