Fara í efni
Til baka í lista

Blönduóskirkja, Brimslóð

Blönduóskirkja eldri
Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1894

Hönnuður: Þorsteinn Sigurðsson forsmiður.[1]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Blönduóskirkja er timburhús, 7,60 m að lengd og 7,06 m á breidd, með kór, 2,49 m að lengd og 3,82 m á breidd, og tvískiptan turn við framstafn, 2,50 m að lengd og 2,63 m á breidd. Þök eru krossreist og klædd bárujárni, en á kirkju er brot á þakinu ofarlega og lægri halli frá mæni. Kirkjan er klædd vatnsklæðningu og stendur á steinhlöðnum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír bogadregnir smárúðóttir steypujárnsgluggar og einn á hvorri hlið kórs. Bogadreginn krosspóstagluggi er á framstafni kirkju hvorum megin stöpuls og einn á framhlið hans og hringgluggi yfir honum. Stöpull nær upp fyrir mæni kirkju og á honum er áttstrent þak. Upp af honum rís áttstrendur burstsettur turn með háa áttstrenda spíru. Turnþök eru klædd sléttu járni. Á turnhliðum eru faldar um fölsk hljómop en yfir þeim laufskurður til skrauts. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir og bogagluggi yfir.

Í forkirkju er stigi hvorum megin upp á forkirkjuloft og dyr að sönglofti og setsvölum. Að framkirkju eru bogadregnar dyr og fyrir þeim spjaldsettar vængjahurðir. Inn af þeim er gangur að kór sem hafinn er yfir kirkjugólf um eitt þrep. Hvorum megin gangs eru aftursættir þverbekkir en langbekkir innst og á setsvölum. Söngloft er yfir fremsta hluta framkirkju og setsvalir inn með hliðum. Við austurgafl framkirkju er frambrún setsvala bogadregin inn að kórdyrum. Undir frambrú setsvala eru fimm stoðir hvorum megin, ferstrendar neðst en sívalar að ofan, og hálfsúla í kórdyrum. Veggir eru klæddir strikuðum panelborðum. Efst á þeim er hvelfd og ávöl sylla. Panelklædd hvelfing er yfir framkirkju og önnur minni yfir kór.



[1] ÞÍ. Biskupsskjalasafn C. V, 162. Bréf 1896. Byggingarreikningur Blönduóskirkju; Guðrún Jónsdóttir. Kirkjur Íslands 8. Blönduóskirkja, 82-96. Reykjavík 2006.