Fara í efni
Til baka í lista

Bókhlaðan, Flatey, Breiðafirði

Friðlýst hús

Byggingarár: 1864

Hönnuður: Niels Björnsson forsmiður að talið er.

Breytingar: Þegar Flateyjarkirkja var byggð 1926 var bókhlaðan flutt innar á Bókhúsaflöt á núverandi stað.[1]

Friðuð í A-flokki af menntamálaráðherra 2. apríl 1975 samkvæmt 1. mgr. 26. gr. og 27. gr. þjóðminjalaga nr. 52/1969.[2]

 

Bókhlaðan er timburhús með krossreist þak, 5,20 m að lengd og 3,91 m á breidd. Húsið stendur á steinhlöðnum sökkli, veggir eru klæddir listaþili og þak rennisúð og frá því gengið með trérennum og niðurföllum. Tveir sex rúðu gluggar með miðpósti eru á hvorri húshlið og einn heldur minni á framstafni uppi yfir dyrum. Til hliða við glugga eru rásaðir faldar, strikuð brík að ofan en vatnsbretti undir hvilftað á neðanvert. Fyrir útidyrum eru tvöfaldar vængjahurðir, okahurðir að utan en spjaldsettar að innan með spjöldum sneiddum í lága píramíta. Hvorum megin dyra eru rásaðar hálfsúlur, undir þeim er sléttur súlufótur en súluhöfðuð að ofan skreytt blómaskurði og strikaður bjór yfir.

Húsið er eitt herbergi og yfir því bitar strikaðir á brúnum og gólfborð rislofts. Veggir eru klæddir spjaldaþili og hið innra er bókhlaðan ómáluð. Á loftinu er skarsúð á sperrum en gaflar óklæddir.


[1]Lbs. 4502 4to. Saga Flateyjarhrepps 20. öld. I Flateyjarkirkja, 573 og 577. Jens Hermannsson; Lbs. 4502 4to. Saga Flateyjarhrepps 20. öld. I Flateyjarkirkja, 573. Jens Hermannsson; Hjörleifur Stefánsson, Þorsteinn Bergsson og Finnbogi Guðmundsson. Bókhlaðan í Flatey, 4; Guðmundur L. Hafsteinsson. Bæjar- og húsakönnun í Flatey 2006. Handrit 24. júní 2007.

[2]Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Friðunarskjal Bókhlöðunnar í Flatey.