Bólstaðarhlíðarkirkja, Húnaveri, Bólstaðarhlíðarhreppi, A-Húnavatnssýslu
Byggingarár: 1888
Hönnuður: Þorsteinn Sigurðsson forsmiður.[1]
Breytingar: Þakið var í öndverðu pappaklætt er var klætt bárujárni 1933.[2]
Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.
Bólstaðarhlíðarkirkja er timburhús, 7,62 m að lengd og 6,37 m á breidd, með kór, 3,09 m að lengd og 3,31 m á breidd, og tvískiptan turn við vesturstafn, 2,22 m að lengd og 2,30 m á breidd. Þök eru krossreist og klædd bárujárni. Kirkjan er klædd listaþili og stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru tveir gluggar, einn á hvorri kórhlið og einn heldur minni á framhlið stöpuls. Í þeim er krosspóstur og fjórar rúður. Stöpull nær upp yfir mæni kirkju og á honum er áttstrent þak og á því áttstrendur turn með lágt áttstrent þak. Hljómop með hlera fyrir er á fjórum turnhliðum. Turnþök eru klædd sléttu járni Efst á þremur hliðum stöpuls er lítill gluggi. Fyrir forkirkju eru spjaldsettar vængjahurðir og þvergluggi yfir.
Í forkirkju norðan megin er stigi til setulofts og spjaldsettar vængjahurðir að framkirkju. Inn af þeim er gangur að kór sem hafinn er yfir kirkjugólf um eitt þrep. Aftursættir bekkir eru hvorum megin gangs. Setuloft á bitum er yfir fremsta hluta framkirkju og undir því fjórar súlur. Veggir eru klæddir strikuðum panelborðum og efst á þeim er band skreytt fléttumunstri sem leitt er fyrir gafl framkirkju, kór og frambrún setulofts. Yfir framkirkju og kór eru panelklæddar stjörnum prýddar hvelfingar.
[1]ÞÍ. Biskupsskjalasafn C. V, 161. Bréf 1891. Reikningur yfir kostnað við byggingu Bólstaðarhlíðarkirkju árið 1888.
[2]ÞÍ. Skjalasafn prófasta. Húnavatnsprófastsdæmi AA/11. Bólstaðarhlíð: 1889; Guðmundur L. Hafsteinsson. Kirkjur Íslands 8. Bólstaðarhlíðarkirkja, 108-119. Reykjavík 2006.