Fara í efni
Til baka í lista

Bræðratungukirkja, Biskupstungnahreppur, Árnessýslu

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1910

Byggingarár: 1911.

Hönnuður: Rögnvaldur Ólafsson arkitekt.[1]

Breytingar: Kirkjuþak var í upphafi klætt bárujárni en árið 1981 var það klætt báruðum stálplötum.[2]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Bræðratungukirkja er timburhús, 7,06 m að lengd og 5,15 m á breidd. Þakið er krossreist og upp af framstafni er ferstrendur turn með háu píramítaþaki sem gengur út undan sér neðst. Kirkjan er klædd bárujárni og stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið eru þrír burstsettir gluggar og einn minni á framstafni. Fyrir kirkjudyrum eru vængjahurðir á okum til hlífðar innri spjaldsettri hurð með þremur rúðum.

Inn af kirkjudyrum er lítil forkirkja og á henni dyr að framkirkju, sömu gerðar og kirkjudyr. Inn af þeim er gangur og bekkir hvorum megin hans. Krókbekkur er norðan megin í kór og stuttur veggbekkur framan prédikunarstóls. Yfir forkirkju er hringjarapallur girtur randskornum grindum og stigi við framgafl norðan megin. Hornstafir forkirkju ganga upp í turninn gegnum súðina. Veggir eru klæddir strikuðum panelborðum. Yfir kirkjunni stafna á milli er súðarloft klætt panelborðum og sperruborðum með skammbitum á milli, allt skreytt kröppum.


[1]ÞÍ. Bps. C. V, 74 B. Bréf 1912. Byggingarreikningur Bræðratungukirkju 1911; Teikningasafn embættis Húsameistara ríkisins. Rögnvaldur Ólafsson arkitekt; Guðmundur L. Hafsteinsson. Kirkjur Íslands 3. Bræðratungukirkja, 13-29. Reykjavík 2002.

[2]ÞÍ. Biskupsskjalasafn 1994-AA/10. Bræðratunga 1982.