Fara í efni
Til baka í lista

Breiðabólstaðarkirkja, Fljótshlíð

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1911

Hönnuður: Rögnvaldur Ólafsson arkitekt.[2]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Breiðabólstaðarkirkja er timburhús, krosslaga að grunnformi, 17,20 m að lengd og 15,70 m á breidd. Þök eru krossreist og milli krossálma í suðvesturhorni er ferstrendur burstsettur turn með háa turnspíru. Kórálma að austanverðu er lengri en hinar álmurnar. Kirkjan er bárujárnsklædd og stendur á steinsteyptum sökkli. Á norður-, suður- og vesturstöfnum kirkju eru þrír háir samlægir burstlaga gluggar með smáum rúðum og er miðglugginn sýnu stærstur. Gluggi er á hvorri hlið kórs, tveir minni á kórbaki og einn sömu stærðar á suðurhlið turns. Kirkjudyr eru á vesturhlið turns og gluggi yfir þeim. Burstsett hljómop er ofarlega á öllum turnhliðum. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir og burst yfir, bogadregin á neðri brún að dropa fyrir miðju og er sami frágangur á hljómopum.

Í forkirkju er stigi upp í turn og spjaldsettar vængjahurðir að framkirkju. Bekkir eru í miðri kirkju milli norður- og suðurgafla og með göflum en gangur utan með og milli bekkjaraða að kór í austurálmu. Kór er hafinn yfir kirkjugólf um þrjú þrep. Innst í kór yfir altari er bogahvelfing og afþiljaðir klefar hvorum megin þess. Í vesturálmu er söngpallur sem hafinn er yfir kirkjugólf um tvö þrep og bekkir fyrir söngflokk kirkjunnar. Veggir eru klæddir strikuðum panelborðum, skoraðar flatsúlur eru á hornum og efst á veggjum málaður skrautbekkur og krappar undir strikasyllu. Loft yfir kirkjunni er opið upp í rjáfur og klætt skásettum strikuðum panelborðum milli sperra en á milli þeirra eru skammbitar.  



[1]ÞÍ. Bps. C, V. 64. Bréf 1912. Byggingarreikningur Breiðabólsstaðarkirkju á árinu 1911-1912.

[2]Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Breiðabólstaðarkirkja í Fljótshlíð.