Fara í efni
Til baka í lista

Brjánslækjarkirkja, Brjánslækur

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1908

Hönnuður: Rögnvaldur Ólafsson arkitekt.[2]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Brjánslækjarkirkja er timburhús, 6,97 m að lengd og 5,07 m á breidd, með turn við vesturstafn, 1,86 m að lengd og 1,96 m á breidd. Þak kirkju er krossreist. Á turni er tvískipt þak; lágreistur píramíti með háa ferstrenda spíru upp af. Kirkjan er bárujárnsklædd og stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír gluggar með sex rúðum og yfir þeim burstsett vatnsbretti og faldar. Efst á turnhliðum eru þrjú burstsett hljómop með rúðum fyrir. Fyrir kirkjudyrum er spjaldahurð með þremur rúðum og yfir þeim háreist burst.

Að framkirkju er fjölspjaldahurð og gangur inn af, þverbekkir hvorum megin hans en veggbekkir í kór. Yfir altari er há útskorin burst á fjórum stoðum. Veggir eru klæddir stikuðum panelborðum. Band er efst á veggjum og tvö þvert yfir á göflum og fylgir efra bandið súðinni upp í rjáfur. Risloft klætt panelborðum neðan á sperrur er stafna á milli. Band er neðst og efst á súðinni og með göflum.


[1]Hörður Ágústsson. Íslensk byggingararfleifð I. Ágrip af húsagerðarsögu 1750-1940, 269. Reykjavík 1998.

[2]ÞÍ. Teikningasafn Embættis Húsameistara ríkisins. Rögnvaldur Ólafsson. Bréf til Landskjalasafns dagsett 18. nóvember 1912. Þar telur Rögnvaldur upp kirkjur þær sem hann hafði teiknað fram að þeim tíma.