Brydebúð, Vík, Víkurbraut 28
Byggingarár: 1831
í Vestmannaeyjum. Flutt til Víkur í Mýrdal 1895.
Friðun
Á fundi Húsafriðunarnefndar 14. febrúar 2012 var samþykkt að setja Brydebúð í Vík í Mýrdal á skrá yfir friðuð hús, sbr. ákvæði 6. gr. laga um húsafriðun um að öll hús sem byggð eru fyrir 1850 séu friðuð.
Kaupmennirnir P. C. Knudtzon og Th. Thomsen ráku verslunina Godthaab í Vestmannaeyjum. Á árunum 1830 til 1831 byggðu þeir nokkur hús fyrir starfsemina, m.a. þetta verslunar- og vörugeymsluhús sem var um 18,8 m langt og um 9,5 m breitt. Þakið var tvöfalt að sunnan og í austurenda var sölubúðin.
Árið 1894 keypti Johan Peter Thorkelin Bryde eignir Godthaabverslunarinnar í Vestmannaeyjum. Hann hafði keypt lóð undir verslunarstarfsemi undir bökkunum í Vík í nóvember sama ár og lét þegar hefjast handa við að byggja grunn undir húsið, sem var með fyrstu húsunum sem reist voru á Víkursandi. Hann lét taka niður stærsta húsið í Vestmannaeyjum og flytja það til Víkur árið eftir. Áður en verslun hófst í Vík þurftu Mýrdælingar og nærsveitamenn að sækja verslun annað hvort til Eyrarbakka eða Papóss og var yfir straumhörð, óbrúuð vatnsföll að fara sem oft voru skeinuhætt. Gat þá verslunarferðin tekið tvær til þrjár vikur.
Framkvæmdum við húsbygginguna í Vík stjórnaði Sveinn Jónsson frá Leirum, en byggingunni var lýst þannig:
Hér skal ekki tjaldað til einnar nætur. Svo sem 100 föðmum frá sjó rís húsið af grunni. Byggingarefnið er úrvalstimbur, bæði máttarviðir og borðviður úr rauðri og feitri furu, sem ekki sýnist geta fúnað. Húsið snýr göflum í austur og vestur. Í vesturendanum á faktorinn úr Vestmannaeyjum að fá íbúð, bæði uppi og niðri. Í austurendanum verður sölubúð, ærið rúmgóð. Á norðurhlið milli búðarinnar og íbúðar faktors er komið fyrir þremur herbergjum, austast verður skrifstofa verslunarstjórans, þá sérstök stofa sem ætluð er til gistingar fyrir Bryde sjálfan eða fulltrúa hans, og vestast í þessari röð herbergi fyrir bókhaldarann, er líka mun setjast hér að. Um miðbik hússins sunnantil verða vörurnar geymdar og einnig á austurloftinu.[1]
Ummerki sýna að húsið hefur verið lengt nokkuð við endurbygginguna, eða um tæpa 8 m. Líklega var þá faktorsíbúðinni bætt við, því engin íbúð var í húsinu meðan það stóð í Eyjum.
Í fyrstu var engin upphitun í sölubúðinni, en fljótlega var settur kolaofn í skrifstofuna. Engin lýsing var heldur í búðinni þannig að ekki var unnt að hafa hana opna eftir að skyggja tók.
Árið 1914 keyptu þeir Þorsteinn Þorsteinsson og Jón Þorsteinsson Brydeverslun. Þegar þeir hættu verslun árið 1926 keypti Kaupfélag Skaftfellinga verslunarhúsið og rak verslun sína í húsinu allt til ársins 1981. Meðan húsið var í eigu þess voru gerðar talsverðar breytingar á innréttingum hússins, en áður hafði kvistur verið settur á framhlið hússins. Eftir að verslunarrekstri var hætt í húsinu voru reknar þar prjónastofur um skeið, en frá árinu 1996 hefur ýmis konar menningarstarfsemi farið fram í húsinu, nú síðast undir merkjum Kötluseturs.
Heimildir:
Einar Erlendsson (1974). Minningar frá verslun í Vík. Goðasteinn, bls. 63-69.
Fasteignir Kötluseturs. Saga þeirra og framtíðarsýn(2011).
Jón Halldórsson (1963). Brot úr verzlunarsögu Víkurkauptúns. Goðasteinn, 2, bls. 3-20.
Kjartan Ólafsson (1987). Verslunarsaga Vestur-Skaftfellinga. Hundrað ára verslun í Vík í Mýrdal. Fyrra bindi. Vík: Vestur-Skaftafellssýsla.
Sigfús M. Johnsen (1946). Saga Vestmannaeyja. II. bindi. Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja.
Sveinn Pálsson (1997). Um Brydebúð. Vík: Menningarfélag um Brydebúð.