Fara í efni
Til baka í lista

Búðakirkja, Búðir

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1847

Byggingarár: 1847–1850.

Hönnuður: Ókunnur.[1]

Breytingar: Kirkjan var flutt um set innan kirkjugarðs 1984.[2] Árið 1994 var milliþil í fremsta stafgólfi á lofti flutt nær vesturgafli og söngloft lengt sem því nam. Milliþilið var fjarlægt árið 2005.

Hönnuður: Hörður Ágústsson listmálari.[3]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Búðakirkja er timburhús, 9,23 m að lengd og 5,27 m á breidd. Þakið er krossreist og upp af vesturstafni er ferstrendur turn með hátt píramítaþak. Kirkjan er klædd slagþili en þak rennisúð og stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír gluggar og tveir á kórbaki. Í þeim er einn rammi með tólf rúður, þær efstu lágbogadregnar, og lágreistur bjór yfir. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir, rismikill bjór yfir og hálfsúlur undir honum hvorum megin dyra.

Gangur er inn af kirkjudyrum og bekkir hvorum megin hans en veggbekkir umhverfis í kór. Kórþil klætt spjaldaþili er í baki innstu bekkja og ferstrendir kórstafir í kórdyrum. Prédikunarstóll er framan kórþils sunnan megin í framkirkju. Söngloft á bitum er yfir fremsta hluta framkirkju og stigi við framgafl sunnan megin. Veggir eru klæddir spjaldaþili, þverbitar eru yfir allri kirkju og loft opið upp í rjáfur, klætt skarsúð á sperrur.


[1]ÞÍ. Biskupsskjalasafn C, V 110. Bréf 1861.Bréf kirkjunefndar til prófasts ásamt fylgiskjölum;BiskupsskjalasafnC, V 109. Bréf 1853.  Lýsing Búðakirkju 1853; Hörður Ágústsson listmálari. Búðakirkja,124. Yrkja.Afmælisrit til Vigdísar Finnbogadóttur. Reykjavík 1990.

[2]Hörður Ágústsson. Búðakirkja, 124–133. Yrkja. Afmælisrit til Vigdísar Finnbogadóttur. Reykjavík 1990; Guðmundur L. Hafsteinsson. Kirkjur Íslands, Búðakirkja, handrit 2009.

[3]Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Búðakirkja.