Fara í efni
Til baka í lista

Búrfellskirkja, Grímsneshreppur, Árnessýslu

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1845

Hönnuður: Bjarni Jónsson forsmiður.[1]

Breytingar: Turn smíðaður á kirkjuna 1849-1850.[2] Hönnuður: Bjarni Jónsson forsmiður að öllum líkindum.[3] Hluti kórþils fjarlægt úr kirkjunni og prédikunarstóll færður inn í suðausturhorn kórs árið 1945.[4]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Búrfellskirkja er timburhús 8,50 m að lengd og 4,35 m á breidd. Þakið er krossreist og upp af framstafni er turn með risþak. Bogadregin hljómop með hlera eru á þremur turnhliðum. Kirkjan stendur á steinsteyptum sökkli, veggir eru klæddir listaþili en þak bárujárni. Á hvorri hlið kirkju eru tveir póstagluggar með þriggja rúðu römmum en fjögurra rúðu gluggi á framstafni. Fyrir kirkjudyrum er spjaldsett hurð og strikuð brík yfir.

Inn af kirkjudyrum er gangur og bekkir hvorum megin hans. Kórþil er í baki innstu bekkja og veggbekkir eru umhverfis í kór að altari. Í norðausturhorni framkirkju er afþiljaður klefi og í honum stigi til turns. Veggir eru klæddir spjaldaþiljum. Yfir framkirkju er afþiljað loft á bitum en yfir kór er súðarloft undir skammbitum klætt spjaldaþili.



[1]Skúli Helgason. Búrfellsmenn, 32-33. Fjölrit í eigu Guðmundar L. Hafsteinssonar.

[2]ÞÍ. Árnesprófastsdæmi AA/6. Búrfell 1850.

[3]Bjarni Jónsson snikkari byggði stofuhús á Búrfelli árið 1849 og er afar líklegt að hann hafi þá smíðað eða hafið smíði turnsins. Sjá: Skúli Helgason. Búrfellsmenn, 33. Fjölrit í eigu höfundar. Turnsins er fyrst getið í prófastsvísitasíu 27. maí 1850. Sjá ÞÍ. Árnesprófastsdæmi AA/6. Búrfell 1850.

[4]Sóknarnefnd Búrfellskirkju. Fundargerðar- og vísitasíubók Búrfellskirkju 1945 og 1947; Guðmundur L. Hafsteinsson. Kirkjur Íslands 3. Búrfellskirkja, 53-66. Reykjavík 2002.