Fara í efni
Til baka í lista

Dyrhólaviti, Dyrhólaey

Friðlýst mannvirki

Byggingarár: 1927

Hönnuðir: Thorvald Krabbe verkfræðingur, Guðjón Samúelsson, húsameistari ríkisins og Benedikt Jónasson verkfræðingur.[2]

Friðaður af menntamálaráðherra 1. desember 2003 samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga um húsafriðun, nr. 104/2001. Friðunin tekur til ytra og innra borðs vitans, ljóshúss og viðbygginga. Þar með eru talin linsa, linsuborð og lampi, herbergjaskipan, hurðir, gluggar, stigar, handrið og innréttingar. Friðunin nær einnig til umhverfis vitans út að bjargbrún vestan og sunnan vitans og hluta hrings með 100 m radíus til norðurs og austurs frá vitanum. Friðunin tekur ekki til tveggja steinsteyptra skúra nokkru vestan við vitann.[3]

 

Dyrhólaeyjarviti er ferstrendur 8 m hár steinsteyptur turn og útbúinn með sænsku sívölu ljóshúsi, 4,7 m á hæð. Á honum er stallað þakskegg og yfir því steinsteypt handrið, sett bogadregnum opum. Gluggar á turninum eru smárúðóttir og bogadregnir að ofan. Á gaflveggjum á annarri hæð eru tveir samliggjandi gluggar í inndregnum fleti, bogadregnum að ofan. Einnar hæðar viðbyggingar með skúrþaki eru við gaflhliðar vitans og við þær lágar steinsteyptar vatnsþrær. Steinsteypt anddyri er við inngangshlið vitans. Krosspóstagluggar, smárúðóttir ofan þverpósts, eru á viðbyggingum. Í annarri viðbyggingunni var komið fyrir geymslum fyrir gashylki og í hinni íveruherbergjum fyrir vitavörð, en eldhúsi og snyrtingu á jarðhæð vitaturnsins. Á 2. og 3. hæð var komið fyrir tækjum radíóvita sem var í notkun frá 1928 og fram yfir stríðsárin seinni.



[1]Thorvald Krabbe. Vitar á Íslandi í 50 ár 1878 – 1. desember – 1928, 42. Reykjavík 1928.

[2]Guðmundur Bernódusson, Guðmundur L. Hafsteinsson og Kristján Sveinsson. Vitar á Íslandi, 191-192 og 361.

[3]Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Friðunarskjal Dyrhólaeyjarvita.