Fara í efni
Til baka í lista

Edinborgarhúsið, Ísafirði, Aðalstræti 7

Friðlýst hús

Byggingarár: 1907

Hönnuður: Rögnvaldur Ólafsson arkitekt.[1]

Friðað af menntamálaráðherra 15. desember 1999 samkvæmt 1. mgr. 35. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989, friðun tekur til ytra borðs.

 

Edinborgarhús er tvílyft timburhús með risþaki á miðhluta en skúrþaki á norður- og suðurenda, 42,05 m að lengd og 12,65 m á breidd. Hliðarveggir hússins halda fullri hæð hvorum megin skúrþaka og ná 0,2 m út fyrir gafla. Húsið stendur á steinsteyptum sökkli. Veggir og þök eru klædd bárujárni og efst á framhlið eru fjórir krappar uppi undir þakskeggi. Á framhlið hússins eru fimm samsettir gluggar hver með þremur átta rúðu römmum og einn með tveimur átta rúðu römmum og einn sömu gerðar er á hvoru gaflhlaði. Um gluggana eru faldar sneiddir á brúnum, vatnsbretti stutt kröppum að ofan en randskorinni fjöl að neðan. Á kvisti eru minni gluggar með tveimur átta rúðu römmum. Útidyr eru á miðri framhlið og fyrir þeim glerhurð og gólfsíður gluggi hvorum megin og þvergluggi að ofan, bogadreginn á efri brún. Um dyrnar eru breiðir faldar og vatnsbretti að ofan stutt kröppum. Á suðurgafli eru tvennar dyr með spjald- og glersettum vængjahurðum og tveir gluggar með átta rúðu römmum við hvorar dyr og krappastudd vatnsbretti yfir.

Einnar hæðar viðbygging er við bakhlið hússins með risþaki á miðhluta. Hvorum megin hennar  eru hallandi veggir með kvistum og smárúðóttum gluggum og skúrþak upp af hverri hlið. Tveggja hæða turnbyggingar með lágt píramítaþak eru við horn.


[1]Elísabet Gunnarsdóttir og Jóna Símonía Bjarnadóttir. Húsakönnun á Ísafirði 1992–1993, 32. Handrit 1993.