Fara í efni
Til baka í lista

Eiríksstaðakirkja, Norður-Hérað, N-Múlasýsla

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1913

Byggingarár: 1913–1915.

Hönnuður: Talinn vera Sigurður Magnússon trésmiður á Valþjófsstað.[1] 

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Eiríksstaðakirkja er steinsteypuhús, 6,40 m að lengd og 5,14 m á breidd. Þakið er krossreist og upp af framstafni er ferstrendur turn með píramítaþaki. Kirkjan er múrhúðuð, þak og turn bárujárnsklædd en turnþak klætt sléttu járni. Undir þakbrúnum eru laufskornar vindskeiðar. Á hvorri hlið kirkju eru tveir bogadregnir smárúðóttir steypujárnsgluggar. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir, þær innri spjaldsettar.

Inn af kirkjudyrum er gangur og aftursættir þverbekkir hvorum megin hans. Prédikunarstóll er sunnan megin í kór en orgel norðan megin. Veggir eru múrhúðaðir og efst á þeim er strikasylla undir panelklæddri hvelfingu stafna á milli.


[1]ÞÍ. Bps. C, V. 34. Bréf 1919. Reikningur yfir byggingarkostnað Eiríksstaðakirkju, ásamt fylgiskjölum; Athugasemd: óljóst er samkvæmt byggingarreikningi hver hafi teiknað kirkjuna en Sigurður Magnússon trésmiður á Valþófsstað er fyrstur talinn upp í byggingarreikningi og gæti því verið höfundur hennar eða jafnvel Einar Eiríksson hreppstjóri á Eiríksstöðum sem vann mest við byggingu hennar.