Fara í efni
Til baka í lista

Eyrarbakkakirkja, Eyrarbakki

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1890

Hönnuður: Jóhann Friðrik Jónsson forsmiður.[2]

Breytingar: Skrúðhús byggt við norðurhlið kórs 1962. Hönnuður: Bjarni Pálsson byggingafulltrúi.[3]Ýmsar breytingar voru gerðar á kirkjunni á árunum 1977-1979. Þá var turninn breikkaður, gluggum og umbúnaði þeirra breytt, kirkjan klædd nýrri vatnsklæðningu að utan og panelborðum innan og smíðaðir í hana nýir bekkir.[4] Hönnuðir: Björgvin Hjálmarsson byggingafræðingur og Bjarni Ólafsson trésmíðameistari.[5]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Eyrarbakkakirkja er timburhús, 11,78 m að lengd og 7,76 m á breidd, með kór undir minna formi, 4,36 m að lengd og 4,55 m á breidd, þvert á kórinn er skrúðhús, 6,37 m að lengd og 3,27 m á breidd, og turn í framstafni, 0,30 m að lengd og 3,85 m á breidd. Þakið er krossreist og upp af framstafni er áttstrendur turn með spíru. Hann stendur á ferstrendum stalli sem gengur sem nemur veggjarþykkt fram úr stafninum. Kirkjan stendur á steinsteyptum sökkli, veggir eru klæddir láréttum plægðum borðum en þök bárujárni. Á hvorri hlið kirkju eru tíu gluggar, fimm niðri og fimm uppi, einn á hvorri hlið kórs, tveir á framhlið turns yfir kirkjudyrum og fjórir á austurhlið skrúðhúss. Í gluggunum eru T-laga póstar, þverrammi ofan þverpósts en þverrimar hvorum megin miðpósts. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir og yfir þeim þvergluggi og bjór.

Forkirkja er yfir þvera kirkju, stúkuð af framkirkju með þverþili. Í henni norðan megin er stigi til sönglofts og setsvala. Á þilinu eru dyr með spjaldsettum vængjahurðum að framkirkju. Inn af þeim er gangur og tíu bekkir hvorum megin hans. Kór er hafinn yfir kirkjugólf um eitt þrep. Söngloft er yfir forkirkju og fremsta hluta framkirkju en setsvalir inn með hliðum að austurgafli. Veggir eru klæddir ómáluðum strikuðum panelborðum. Yfir framkirkju er reitaskipt hvelfing og önnur minni yfir kór.



[1]Magnús Guðjónsson. Eyrarbakkakirkja, 5-19.

[2]Vigfús Guðmundsson. Saga Eyrarbakka II, fyrra hefti, 237.

[3]Guðmundur L. Hafsteinsson. Kirkjur Íslands 4. Eyrarbakkakirkja, 17. Reykjavík 2003.

[4]ÞÍ. Bps. 1994-AA/10. Eyrarbakki 1982.

[5]Bjarni Ólafsson trésmíðameistari. Viðtal 2000.