Eyrarlandsstofa, Lystigarðinum
Byggingarár: 1844
Byggingarár: 1848.
Hönnuður: Þorsteinn Daníelsson forsmiður.
Breytingar: Húsið stóð þar sem nú eru bílastæði Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri og var flutt inn í Lystigarðinn árið 1987.[1]
Friðað 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.
Eyrarlandsstofa er einlyft timburhús með risþaki, 9,59 m að lengd og 5,42 m á breidd. Húsið stendur á steinsteyptum sökkli, veggir eru klæddir slagþili og þak rennisúð. Á húsinu eru sex krosspóstagluggar með sex rúðum; tveir á vesturhlið, einn á suðurstafni og þrír á austurhlið. Efst á hvorum stafni er fjögurra rúðu póstgluggi. Útidyr eru á austurhlið nærri miðju húsi og bakdyr á vesturhlið norðarlega.
Forstofa er inn af útidyrum, herbergi í norðausturhluta, stofa í suðurenda, forstofa og stigi inn af bakinngangi og snyrting er í norðvesturhluta hússins. Upp af stiga er geymsluloft og afþiljað herbergi við suðurgafl. Veggir á jarðhæð eru klæddir strikuðum panelborðum en snyrting er plötuklædd. Loft eru klædd plötum á milli klæddra bita. Veggir í risi eru klæddir spjaldaþili. Súð á geymslulofti er klædd skarsúð á sperrur og í suðurherbergi er listuð standsúð. Jarðhæð og suðurloft eru máluð að innan en geymsluloft bæsað. Rishæð hússins er ófrágengin að innan.