Fara í efni
Til baka í lista

Fáskrúðsfjarðarkirkja (Búðakirkja), Búðahreppur, S-Múlasýsla

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1914

Hönnuður: Rögnvaldur Ólafsson arkitekt.[1]

Breytingar: Kyndiklefi reistur við kórbak 1957 og kirkjan einangruð að innan 1977.

Kyndiklefi rifinn og safnaðarheimili reist við kórbak 1997.

Hönnuður: Björn Kristleifsson arkitekt.[2]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Búðakirkja er steinsteypuhús, 14,21 m að lengd og 7,90 m á breidd, með krossstúkur við hliðarveggi, 3,46 m að lengd og 0,63 m á breidd, og safnaðarheimili við kórbak, 4,99 m að lengd og 7,03 m á breidd. Upp af vesturstafni er bárujárnsklæddur ferstrendur timburturn á lágum stalli og á honum píramítaþak sem sveigist út undan sér að neðan og er klætt sléttu járni. Hljómop með hlera og bogaglugga yfir er á turnhliðum. Á kirkjunni eru mænisþök klædd bárujárni. Veggir eru múrhúðaðir og efst á stöfnum undir þakbrúnum er múrhúðuð vindskeið, bogadregin neðst og þverskorin að neðan og strikuð múrbrún undir þakskeggi. Á hvorri hlið kirkju eru fimm bogadregnir smárúðóttir gluggar, þrír á framstafni yfir kirkjudyrum. Í þeim eru T-laga póstar úr tré en rimar úr járni. Falskir hringgluggar eru á stöfnum krossstúka. Fyrir kirkjudyrum eru inndregnar spjaldsettar vængjahurðir og lágbogi yfir. Á safnaðarheimili eru fimm bogagluggar, tveir ferkantaðir gluggar á kjallara og hringgluggi efst á stafninum. Dyr með spjaldsettri hurð eru á norðurhlið safnaðarheimilis.

Forkirkja er með þverum framgafli og í henni stigi upp á söngloft yfir forkirkju og fremsta hluta framkirkju. Spjaldsettar vængjahurðir eru að framkirkju, gangur inn af þeim og bekkir hvorum megin hans. Kór er undir minna formi og sunnan megin í honum er afþiljað skrúðhús og gengið úr því í prédikunarstól innst í framkirkju. Að norðanverðu er opin stúka og dyr að safnaðarheimili að kórbaki. Veggir og hvelfingar yfir framkirkju og kór eru múrhúðaðar.



[1]ÞÍ. Teikningasafn Embættis Húsameistara. Rögnvaldur Ólafsson. Búðakirkja á Fáskrúðsfirði.

[2]Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Búðakirkja á Fáskrúðsfirði.