Fara í efni
Til baka í lista

Fellskirkja, Sléttuhlíð

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1881

Byggingarár: 1881–1882.

Hönnuður: Árni Jónsson forsmiður.

Breytingar: Í öndverðu voru áttarúðu gluggar í kirkjunni, léreft á þaki, klukknaport á framhlið og veggir timburklæddir.[1] Þakið var bárujárnsklætt um 1897, söngpallur smíðaður í norðvesturhorni skömmu fyrir 1905 og 1913 voru veggir klæddir bárujárni og forkirkja smíðuð. Steypt var utan á sökkul um 1938 og 1951 voru breyttir gluggar settir í kirkjuna.[2] Hönnuðir: Ókunnir. Árið 1981 skrautmálaði Hörður Jörundsson listmálari kirkjuna að innan.[3]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Fellskirkja er timburhús, 7,68 m að lengd og 5,74 m á breidd, með forkirkju, 1,90 m að lengd og 2,00 m á breidd. Risþak er á kirkju en krossreist á forkirkju. Upp af framstafni er kross. Undir honum er lágur ferstrendur stallur með íbjúgt píramítaþak, klæddur sléttu járni. Kirkjan er bárujárnsklædd og stendur á steinhlöðnum og steinsteyptum sökklum. Á hvorri hlið kirkju eru tveir gluggar og einn á suðurhlið forkirkju. Í þeim er krosspóstur og fjórar rúður. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir og bjór yfir.

Loft yfir forkirkju er opið upp í rjáfur og þar hanga tvær klukkur í ramböldum. Spjaldsett hurð er að framkirkju. Gangur er inn af henni og þverbekkir hvorum megin hans en veggbekkir og langbekkir í kór. Söngpallur er fremst í framkirkju norðan megin og veggbekkur við vesturgafl. Veggir forkirkju eru klæddir strikuðum panelborðum en kirkjan spjaldaþili. Yfir kirkju er reitaklætt súðarloft skreytt stjörnum.



[1]ÞÍ. Biskupsskjalasafn C. V, 173. Byggingarreikningur Fellskirkju 1883; Skagafjarðarprófastsdæmi AA/11. Fell 1883.

[2]ÞÍ. Skjalasafn prófasta. Skagafjarðarprófastsdæmi AA/12, 15, 17 og 18. Fell 1897, 1905, 1914, 1938 og 1952; Júlíana Gottskálksdóttir. Kirkjur Íslands 6, Fell 39–50. Reykjavík 2005.

[3]Eggert Jóhannsson í Felli. Viðtal 1998.