Fellskirkja, Sléttuhlíð

Byggingarár: 1881
Hönnuður: Árni Jónsson forsmiður.
Saga
Fellskirkja hefur að öllum líkindum verið höfuðkirkja frá fyrstu tíð en elsta ritaða heimild um hana er Auðunarmáldagi frá um 1318. Kirkjan var helguð Pétri postula í kaþólskum sið. Núverandi kirkja var reist í stað eldri timburkirkju sem var í notkun meðan á smíðinni stóð.
Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.
Lýsing
Fellskirkja er timburhús, 7,68 m að lengd og 5,74 m á breidd, með forkirkju, 1,90 m að lengd og 2,00 m á breidd. Risþak er á kirkju en krossreist á forkirkju. Upp af framstafni er kross. Undir honum er lágur ferstrendur stallur með íbjúgt píramítaþak, klæddur sléttu járni. Kirkjan er bárujárnsklædd og stendur á steinhlöðnum og steinsteyptum sökklum. Á hvorri hlið kirkju eru tveir gluggar og einn á suðurhlið forkirkju. Í þeim er krosspóstur og fjórar rúður. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir og bjór yfir.
Loft yfir forkirkju er opið upp í rjáfur og þar hanga tvær klukkur í ramböldum. Spjaldsett hurð er að framkirkju. Gangur er inn af henni og þverbekkir hvorum megin hans en veggbekkir og langbekkir í kór. Söngpallur er fremst í framkirkju norðan megin og veggbekkur við vesturgafl. Veggir forkirkju eru klæddir strikuðum panelborðum en kirkjan spjaldaþili. Yfir kirkju er reitaklætt súðarloft skreytt stjörnum.
Heimild
Kirkjur Íslands, 6. bindi, Reykjavík 2005. bls. 37-59