Fríkirkjan í Hafnarfirði, Linnetsstígur 8
Byggingarár: 1913
Hönnuður: Davíð Kristjánsson trésmíðameistari.
Breytingar: Kór stækkaður og turnþaki breytt 1931.
Hönnuður: Guðmundur Einarsson trésmíðameistari.
Stigahús reist sitt hvoru megin við turn og skrúðhús reist sunnan megin við kór 1955.
Hönnuður: Guðmundur Einarsson trésmíðameistari.
Skrúðhús sunnan við kór stækkað og anddyri reist norðan við kór og viðbyggingar reistar sitt hvoru megin við stigahús turns 1982.
Hönnuður: Óli G. H. Þórðarson arkitekt.[1]
Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.
Fríkirkjan í Hafnarfirði er timburhús, 11,45 m að lengd og 10,21 m á breidd, með hornsneiddum kór, 1,24 m að lengd hornsneiðingar 1,22 m að lengd en kórbakið 2,82 m á breidd og viðbyggingu hvorum megin, 2,25 m að lengd og 4,60 m á breidd, tvískiptan turn við framstafn, 0,20 m að lengd og 3,25 m á breidd, stigahús hvorum megin, 0,50 m að lengd og 0,88 m á breidd, og viðbyggingar við þau, 2,49 m að lengd og 1,67 m á breidd. Risþak er á kirkju og gaflsneiðingar á kór og viðbyggingum. Stöpull er ferstrendur og á honum stendur mjór og hár turn með hátt kvistsett píramítaþak. Kirkjan er bárujárnsklædd og stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru tvær gluggaraðir með oddbogagluggum og eru neðri gluggarnir sjónarmun hærri. Fjórir mjóir gluggar eru á kór, tveir hvorum megin á turnviðbyggingum og tveir á framhlið turns en bogagluggar á stigahúsum. Fyrir kirkju eru spjaldsettar vængjahurðir og bogagluggi yfir og dyr á norðurhlið kórs.
Í forkirkju eru stigar til sönglofts og setsvala inn með hliðum. Spjaldsettar vængjahurðir eru að framkirkju og gangur inn af þeim og þverbekkir hvorum megin hans. Stoðir við frambrúnir setsvala deila kirkjunni í miðskip og hliðarskip hvorum megin. Veggir eru klæddir panelborðum. Flatt loft er yfir setsvölum en hvelfing yfir miðskipi og önnur minni yfir kór.