Galtafell, sumarhús Einars Jónssonar myndhöggvara, Hrunamannahreppi
Byggingarár: 1923
Byggingarár: Nákvæmt byggingarár er óvíst en talið er að húsið sé byggt á árunum 1923 til 1940.
Höfundur: Einar Jónsson myndhöggvari
Friðlýsing
Með vísan til 3. mgr. 18. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012 friðlýsti forsætisráðherra að tillögu Minjastofnunar Íslands Galtafell, sumarhús Einars Jónssonar myndhöggvara, 3. mars 2014. Friðlýsingin nær til ytra borðs og innréttinga hússins.
Byggingarefni
Timburhús.
Sumarhús Einars Jónssonar myndhöggvara er byggt í fjóstóft gamla bæjarins í Galtafelli í Hrunamannahreppi. Það er lítil en afar sérstök bygging, timburhús með krossreistu þaki á háum sökkli. Innan dyra sem utan endurspeglar það hugarheim listamannsins enda er húsið að mestu leyti hans sköpunarverk, auk þess að vera meðal elstu sumarhúsa landsins sem varðveist hafa.
Í endurminningum Einars Jónssonar kemur fram hve heitt hann ann bernskuheimili sínu í Galtafelli og það hafi verið ein heitasta ósk hans að reisa þar sumarbústað. Ósk hans varð að veruleika sumarið 1923 þegar Ungmennafélag Hrunamannahrepps aðstoðaði hann við að gera garða þar sem húsið átti að standa í skiptum fyrir afsteypu af mynd hans Þróun. Auk þess fékk hann fjárstyrk frá sýslunefnd Árnessýslu og fleiri aðilum þannig að hann gat hafist handa við byggingu hússins. Einari var umhugað um að varðveita tóft gamla fjóssins, þaðan sem hann átti margar gamlar og góðar endurminningar, og hafði hann gamla hlöðubásinn fyrir kjallara hússins.
Einar dvaldi langdvölum í Galtafelli ásamt eiginkonu sinni og varð þessi staður endurnýjunarstöð bæði andlegra og ytri krafta, eins og hann segir í minningum sínum.
Heimild:
Einar Jónsson. 1944. Minningar. Reykjavík: Bókfellsútgáfan hf.