Gamla íbúðarhúsið Ögri, Ögur, Ísafjarðardjúpi
Byggingarár: 1884
Byggingarár: 1884–1885.
Hönnuður: Ókunnur en húsið reisti Einar snikkari á Ísafirði fyrir Jakob Rósinkarsson forsmið og bónda í Ögri.[1]
Friðað af menntamálaráðherra 19. apríl 1991 samkvæmt 1. mgr. 35. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989. Friðun tekur til alls hússins að utan og innan.[2]
Gamla húsið í Ögri er tvílyft timburhús með risþaki, 11,43 m að lengd og 7,66 m á breidd. Húsið stendur á háum steinlímdum grjótsökkli, veggir eru klæddir lóðréttum panelborðum og þak bárujárni. Á framhlið hússins eru átta sex rúðu krosspóstagluggar, sjö á bakhlið og fimm á hvorum stafni. Útidyr eru á miðri framhlið og fyrir þeim tvöfaldar vængjahurðir og þvergluggi yfir. Fram undan dyrum eru trétröppur. Á bakhlið, vestan við miðju hússins, eru dyr með svipuðum umbúnaði og að framan og fyrir þeim trétröppur. Undir bakdyrum eru dyr að kjallara og steinhlaðnar tröppur að þeim. Á austur- og vesturhlið kjallara er gluggi með miðpósti og tveimur þriggja rúðu römmum.
Í ófrágengnum kjallara hússins er geymsla. Á jarðhæð hússins er íbúð og inngangur í hana á framhlið. Önnur íbúð er á efri hæð og risi og inngangur í hana er á bakhlið hússins. Veggir og loft eru flest klædd strikuðum panelborðum.[1]Þorsteinn Gunnarsson. Húsið í Ögri. Skoðunargerð 1980.
[2]Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Friðunarskjal gamla hússins í Ögri.