Fara í efni
Til baka í lista

Gamla sjúkrahúsið, Ísafirði, Eyrartúni

Friðlýst hús

Byggingarár: 1925

Byggingarár: 1924–1925.[1]

Hönnuður: Guðjón Samúelsson arkitekt.[2]

Friðað af menntamálaráðherra 15. desember 1999 samkvæmt 1. mgr. 35. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989. Friðun tekur til ytra borðs.[3]

 

Gamla sjúkrahúsið er tvílyft steinsteypuhús, á háum kjallara, og með risþak, um 24,8 m að lengd og 10,6 m á breidd. Sveigður karnap er á framhlið hússins með svölum og bogakvisti efst og stigahús með brotaþaki gengur út úr miðri bakhlið, um 4,8 m að lengd og 1,8 m á breidd. Á þaki eru tíu kvistir með bogaþaki og fjórir reykháfar á mæni. Útidyr eru á miðri framhlið og fyrir þeim smárúðóttar tvöfaldar vængjahurðir með  þverglugga að ofan. Við dyrnar eru hálfsúlur en brík og bogadreginn bjór yfir og fram undan þeim eru steinsteyptar tröppur. Aðrar dyr eru á austurgafli með smárúðóttum vængjahurðum og þverglugga. Bakdyr eru hálfri hæð neðar en hinar og að þeim steinsteypt skábraut. Kjallaratröppur og dyr eru á austanverðri bakhlið. Fjölbreytilegar gluggagerðir eru á húsinu. Á framhlið eru 13 T-póstagluggar með tveimur póstum og 21 rúðu hver, þar af einn sveigður á karnap, og tveir á neðri hluta austurstafns. Þrír 11 rúðu T-póstagluggar eru á efri hluta hvors gafls og á neðri hluta vesturgafls er stór 20 rúðu póstagluggi bogadreginn að ofan og þriggja rúðu gluggar hvorum megin hans. Á bakhlið hússins eru minni gluggar en á öðrum hliðum eru ýmist átta rúðu krosspóstagluggar eða fjögurra rúðu gluggar. Á kjallara eru tveggja, fjögurra og átta rúðu gluggar og á kvistum eru tveir eða þrír rammar með átta rúðum hver. Yfir bakdyrum er múruð lágmynd með bókrullu- eða blaðsveigum og áletruninni Sjúkrahús Ísafjarðar 1925. Efst á gafli stigahúss er egglaga gluggi með blaðsveig yfir. Veggir eru múrhúðaðir, sökkulband er neðarlega á veggjum og stölluð veggkróna efst á veggjum uppi undir þakskeggi og þak er bárujárnsklætt.


[1]Jóhann Hinriksson og Jón Sigurpálsson. Gamla sjúkrahúsið. Greinargerð 1990.

[2]ÞÍ. Teikningasafn embættis húsameistara ríkisins. Guðjón Samúelsson arkitekt.

[3]Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Friðunarskjal gamla sjúkrahússins á Ísafirði.