Fara í efni
Til baka í lista

Gamla Syðstabæjarhúsið, Hrísey, Norðurvegur 3

Friðlýst hús

Byggingarár: 1856

Byggingarár: 1885–1886.

Hönnuður: Jóhann Bessason smiður.

Athugasemd: Máttarviðir eru úr norsku skonnortunni Skjöld sem strandaði við Hrísey 1884.

Breytingar: Flutt á núverandi stað 1917 norðan og ofan af brekkunni og sett á steinsteyptan kjallara 1922.

Hönnuður: Jón Sigurðsson verkfræðingur frá Hellulandi í Hrísey.

Ýmsar breytingar voru síðan gerðar næstu áratugi á innra fyrirkomulagi hússins og upp úr 1950 var það múrhúðað að utan.[1]

Hönnuðir: Ókunnir.

Friðað af menntamálaráðherra 22. maí 2003 samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga um húsafriðun, nr. 104/2001. Friðun tekur til ytra borðs.[2]

 

Syðstabæjarhús er einlyft portbyggt timburhús með risþaki, 12,65 m að lengd og 6,40 m á breidd. Húsið stendur á steinsteyptri undirstöðu. Miðjukvistur með risþaki er upp af framhlið hússins. Við miðja bakhlið er bakdyraskúr, 4,6 m að lengd og 4,73 m á breidd, á steinsteyptum sökkli og á honum lágt risþak. Framhlið kjallara er hraunuð en aðrar hliðar sléttmúraðar. Veggir eru klæddir listaþili. Á húsinu eru 12 sexrúðu gluggar með miðpósti; sjö á vesturhlið þar af tveir á kvisti, einn á bakhlið og tveir á hvorum gafli. Tveir gluggar sömu gerðar en minni eru á gaflhyrnu sunnan megin á húsinu og einn að norðanverðu. Yfir gluggunum er brík strikuð á neðri brún og vatnsbretti að ofan. Á gaflhyrnu sunnan megin eru að auki tveir tveggja rúðu gluggar en yfir þeim er vatnsbretti. Á framhlið kjallara eru fjórir sex rúðu gluggar með miðpósti og dyr fyrir miðju með vængjahurðum. Aðaldyr hússins eru á suðurgafli og á bakdyraskúr eru dyr á hvorri hlið og fjórir einnar rúðu gluggar á gafli. Þök eru klædd bárujárni og á bakdyraskúr eru tveir þakgluggar.


[1]Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Syðstabæjarhús í Hrísey.

[2]Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Friðunarskjal Syðstabæjarhúss.