Fara í efni
Til baka í lista

Gamli barnaskólinn, Seyðisfirði, Suðurgötu 4

Friðlýst hús

Byggingarár: 1907

Athugasemd: Teiknaður og tilsniðinn í Strömmen Trævarefabrik í Christiania í Noregi.[1]

Húsið var panelklætt á veggjum og á framhlið voru fjórar flatsúlur undir miðjukvisti, á þakkvistum voru gluggar með miðpósti og tveimur sex rúðu gluggarömmum. Síðar voru veggir klæddir bárujárni og flatsúlur fjarlægðar nema sitt hvorum megin útidyra.

Hönnuðir: Ókunnir.

Friðaður af menntamálaráðherra 15. desember 1999 samkvæmt 1. mgr. 35. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989. Friðun tekur til ytra borðs.[2]

 

Seyðisfjarðarskóli er tvílyft timburhús með bárujárnsklætt valmaþak, 21,42 m að lengd og 11,38 m á breidd. Húsið stendur á steinhlöðnum kjallara með steypulagi utan á. Miðjukvistur með lágu risþaki er á framhlið hússins og þakkvistur með lágu risþaki hvorum megin hans og tveir að sunnanverðu. Þrír reykháfar eru á mæni hússins. Á miðri framhlið hússins eru útidyr með bogaglugga yfir. Til hliðar við dyrafalda eru flatsúlur en framan við þær standa súlur á stöplum og er dyraskyggni á milli þeirra. Framundan dyrum eru steinsteyptar tröppur. Veggir eru klæddir bárujárni og umhverfis húsið er hæðarskilsband fyrir ofan glugga jarðhæðar. Á húsinu eru T-pósta gluggar með tveimur rúðum undir þverpósti en 10 smáum rúðum í þverramma að ofan; 10 þeirra eru á framhlið og 19 á bakhlið og tekur gluggasetning mið af stærð kennslustofa á báðum hæðum og samliggjandi sölum á efri hæð að vestanverðu. Gluggar jarðhæðar eru sjónarmun hærri en gluggar á efri hæð. Hvorum megin útidyra er krosspóstagluggi með 20 rúðum og aðrir fyrir ofan þá á efri hæð. Fyrir ofan dyraskyggni er T-póstagluggi með bogarima og geislarimum í þverfagi. Ílangur hringgluggi er á miðjukvisti og tveir á framhlið hússins og 12 rúðu póstagluggar á þakkvistum. Á kjallara eru 15 fjögra rúðu gluggar og tveir þriggja rúðu við útitröppur og kjallaradyr eru á bakhlið. Við norðurstafn hússins er einlyft steinsteypt viðbygging með valmaþaki, 2,54 m að lengd og 3,40 m á breidd, og á henni dyr og gluggagat með hlera fyrir. Járntröppur eru við suðurstafn hússins og dyr á efri hæð.


[1]Þóra Guðmundsdóttir. Af norskum rótum – gömul timburhús á Íslandi. Seyðisfjörður, 161-163. Mál og menning. Reykjavík 2003.

[2]Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Friðunarskjal gamla barnaskólans á Seyðisfirði.