Fara í efni
Til baka í lista

Garðskirkja, Kelduneshreppur, N-Þingeyjarsýslu

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1890

Hönnuður: Stefán Erlendsson forsmiður.

Breytingar: Í öndverðu voru tveir rammar í gluggum, hvor með átta rúðum, kirkjan var turnlaus en klukknaport stóð gegnt kirkjudyrum. Steypt var utan á veggi kirkjunnar 1949 og steinsteyptur turn reistur 1950, gólf var steypt 1970 og gluggum breytt.[1]

Hönnuðir: Ókunnir.

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Garðskirkja er timburhús, hjúpað steinsteypu, 10,50 m að lengd og 6,02 m á breidd, með steinsteyptan turn við vesturstafn, 2,93 m að lengd og 3,06 m á breidd. Lágreist þak er á kirkjunni en píramítaþak á turni, bæði klædd bárujárni. Kirkjan er kvarshúðuð en brúnir um glugga og dyr, á hornum, undir þakskeggi og þakbrúnum eru húðaðar hrafntinnu. Á hvorri hlið kirkju eru þrír gluggar með 16 rúðum, tveir gluggar með átta rúðum á kórbaki en þrír gluggar á hvorri turnhlið og hringgluggi á framhlið turns en þvergluggi efst upp undir þakskeggi. Um glugga eru bogadregnir faldar. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir.

Að framkirkju eru spjaldsettar vængjahurðir, gangur inn af þeim og þverbekkir hvorum megin hans. Prédikunarstóll er í fremstu bekkjaröðum sunnan megin. Setuloft er yfir fremsta hluta framkirkju og fóðraður stigi við framgafl sunnan megin. Dyr eru á setuloftinu að turni. Veggir forkirkju eru klæddir sléttum plötum en kirkjan standþiljum. Brjóstlisti er umhverfis í kirkjunni undir gluggum. Yfir setulofti er súðarloft og loft undir skammbitum eru klædd borðum. Yfir innri hluta framkirkju og kór er reitaskipt lágbogahvelfing.


[1]Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Garðskirkja í Kelduhverfi.