Fara í efni
Til baka í lista

Gaulverjabæjarkirkja, Gaulverjabær, Árnessýslu

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1909

Hönnuður: Sigurður Magnússon forsmiður.[2]

Breytingar: Árið 1978 voru veggir klæddir trapisuformuðum stálplötum í stað bárujárns, gluggum og umbúnaði þeirra breytt og reitir hvelfingar plötuklæddir. Árið 1983 var þverþil milli forkirkju og framkirkju fært inn í framkirkju um hálfan metra, skrúðhús útbúið undir stiga norðan megin en salerni sunnan megin. Dyr á þverþili hvorum megin kirkjudyra voru aflagðar.[3] Hönnuðir: Ókunnir. Árið 2004 voru gluggar færðir til upprunalegs horfs og 2009 var kirkjan klædd að nýju með bárujárni og skraut við glugga endurgert.[4]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Gaulverjabæjarkirkja er timburhús, 10,80 m að lengd og 7,68 m á breidd, með kór undir minna formi, 3,60 m að lengd og 3,90 m á breidd. Þakið er krossreist, klætt bárujárni og undir þakbrúnum eru laufskornar vindskeiðar. Upp af vesturstafni er ferstrendur burstsettur turn. Á honum er ferstrend spíra klædd sléttu járni, og undir turninum er stallur. Á framhlið turns er hljómop með hlera og þverglugga með bogarimum yfir. Kirkjan er klædd bárujárni og stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír gluggar, einn á hvorri hlið kórs, allir með bjór yfir, og þrír á vesturstafni yfir kirkjudyrum. Í þeim er T-laga póstur og þriggja rúðu rammi hvorum megin miðpósts en þverrammi með bogarimum yfir þverpósti. Fyrir kirkjudyrum eru vængjahurðir og yfir þeim þvergluggi og bjór.

Inn af dyrum er forkirkja og í henni hvorum megin er stigi til sönglofts og setsvala. Að framkirkju eru spjaldsettar vængjahurðir, gangur inn af þeim og bekkir hvorum megin hans. Kór er hafinn yfir kirkjugólf um eitt þrep. Söngloft er yfir forkirkju og fremsta hluta framkirkju en setsvalir með hliðum að austurgafli. Undir frambrúnum setsvala hvorum megin eru þrjár stoðir með súluhöfuð. Tvær turnstoðir eru á sönglofti og bogadreginn biti á milli þeirra, ávalur til enda. Veggir eru klæddir strikuðum panelborðum og efst á þeim er strikasylla. Reitaskipt stjörnuprýdd hvelfing er yfir framkirkju stafna á milli og önnur minni yfir kór.



[1]ÞÍ. Bps. 1994-AA/3. Gaulverjabær 1915.

[2]Hörður Ágústsson. Íslensk byggingararfleifð I, 247. Reykjavík 2000.

[3]Árnesprófastsdæmi. Vísitasíubók 1955-. Gaulverjabær 1971; ÞÍ. Bps. 1944-AA/10. Gaulverjabær 1982; Biskupsstofa. Biskupsvísitasía. Gaulverjabær 2001. Greinargerð sóknarnefndar um framkvæmdir við kirkjuna eftir 1982; Guðmundur L. Hafsteinsson. Kirkjur Íslands 4. Gaulverjabæjarkirkja, 49-65. Reykjavík 2003.

[4]Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Gaulverjabæjarkirkja.