Fara í efni
Til baka í lista

Glæsibæjarkirkja, Kræklingahlíð, Eyjafirði

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1865

Byggingarár: 1866.

Hönnuður: Þorsteinn Daníelsson forsmiður á Skipalóni.

Athugasemd: Kirkjan er smíðuð upp úr Ósstofu í Hörgárdal sem Þorsteinn reisti 1858.

Breytingar: Turn smíðaður 1929.[1]

Hönnuður: Ókunnur.

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Glæsibæjarkirkja er timburhús, 8,84 m að lengd og 5,71 m á breidd, með tvískiptan turn við vesturstafn, 2,30 m að lengd og 2,33 m á breidd. Þakið er krossreist og kvistur á því sunnan megin. Kirkjan er klædd slagþili, þak bárujárni, turnþak sléttu járni og stendur á steinhlöðnum og steinsteyptum sökklum. Á hvorri hlið kirkju eru þrír póstagluggar með tveimur þriggja rúðu römmum og einn á framhlið stöpuls. Tveir hálfgluggar með þremur rúðum eru á kórbaki. Stöpull nær upp að mæni kirkju, á honum er píramítaþak og á því mjór turn með íbjúgu píramítaþaki. Fyrir kirkjudyrum er spjaldsett hurð og burstgluggi yfir.

Í forkirkju er stigi upp í turninn og spjaldsett hurð að framkirkju. Inn af henni er gangur að kór sem skilinn er frá framkirkju með kórþili. Í því er spjaldaþil að neðan en ferstrendir rimar að ofan upp undir þverbita. Kórstafir með boga á milli eru í kórdyrum. Stóldyr eru að prédikunarstól sem er framan þilsins sunnan megin undir súðarglugga. Þverbekkir eru hvorum megin gangs, þeir innstu tvísættir, og veggbekkir umhverfis í kór að altari. Veggir forkirkju eru klæddir panelborðum en kirkja standþiljum og á þær negld sylla við neðri brún glugga. Kórgafl er klæddur póstaþili yfir þverbita. Þverbitar og skammbitar eru yfir kirkju og loft opið upp í mæni, klætt skarsúð ofan á sperrur.



[1]Hjörleifur Stefánsson. Kirkjur Íslands 9. Glæsibæjarkirkja, 90-104. Reykjavík 2007.