Gránufélagshúsin, Strandgata 49
Byggingarár: 1873
Byggingarár: Reist í áföngum 1873–1885.
Athugasemd: Vestasta húsið er elst, flutt frá Seyðisfirði 1873 en talið byggt þar upp úr 1850.
Hönnuður: Ekki er kunnnugt um hönnuð vesturhluta hússins en talið er að Jón Christinn Stephánsson hafi hannað miðhluta og austurenda.[1]
Friðað í B-flokki af menntamálaráðherra 24. nóvember 1982 samkvæmt 1. mgr. 26. gr. og 27. gr. þjóðminjalaga nr. 52/1969.[2]
Gránufélagshúsin eru þrjú sambyggð timburhús.
Vestasta húsið er einlyft með risþaki og stendur á steinhlöðnum og steyptum sökkli, 16,40 m að lengd og 7,23 m á breidd. Veggir eru klæddir slagþili og þak bárujárnsklætt. Á framhlið hússins eru þrír sex rúðu gluggar með miðpósti og einn á vesturstafni. Að auki eru á framhlið vestarlega tveir fjögurra rúðu krosspóstagluggar, nokkru stærri en aðrir gluggar hússins. Útidyr með spjaldsettri hurð eru austarlega á framhlið og fram undan þeim lágar trétröppur og bakdyr eru vestarlega á bakhlið.
Miðhluti Gránufélagshúsa snýr þvert á endahúsin og nær 0,22 m fram fyrir vestasta húsið og 0,53 aftur fyrir það. Húsið er tvílyft með brotaþaki og stendur á steinhlöðnum og steinsteyptum sökkli, 12,89 m að lengd og 7,98 m á breidd. Veggir eru klæddir listaþili og þak bárujárni. Á framstafni eru níu fjögurra rúðu krosspóstagluggar en fimm sex rúðu gluggar með miðpósti á bakstafni. Útidyr eru á framstafni og fyrir þeim spjaldsett hurð og bjór yfir. Fram undan dyrum eru trétröppur. Við bakstafn hússins er hringstigi úr járni og dyr eru á hverri hæð hússins. Geymslugámur, klæddur lóðréttum panelborðum, stendur við bakstafn og tengigangur er milli hans og hússins.
Austasta húsið er einlyft með risþaki og stendur á steinhlöðnum og steyptum sökkli, 19,24 m að lengd og 7,63 m á breidd. Miðjukvistur með lágu risþaki er á framhlið og tveir þakkvistir með risþökum. Upp að bakhlið næst austurstafni er steinsteypt bygging. Veggir eru klæddir listaþili og þak bárujárni. Á framhlið eru níu fjögurra rúðu krosspóstagluggar og efst á miðjukvisti er fjögurra rúðu gluggi. Níu rúðu tvípósta krossgluggi er á hvorum þakkvisti. Á austurstafni er tveggja rúðu gluggi með miðpósti, þrír níu rúðu gluggar og lítill gluggi efst á gaflhlaði. Fjórir sex rúðu gluggar með miðpósti eru á bakhlið hússins auk bakdyra. Útidyr eru á framhlið og fyrir þeim spjaldsett hurð og þvergluggi og bjór yfir. Fram undan dyrum eru trétröppur.
[1]Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson. Oddeyri. Húsakönnun 1990-1994, 47-49. Minjasafnið á Akureyri í samvinnu við Skipulagsdeild Akureyrarbæjar 1995.
[2]Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Friðunarskjal Gránufélagshúsanna.