Fara í efni
Til baka í lista

Grenjaðarstaðarkirkja, Aðaldælahreppur, Suður-Þingeyjarsýslu

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1865

Hönnuður: Árni Hallgrímsson forsmiður frá Garðsá.[1]

Breytingar: Árin 1964–1965 var kirkjan lengd um eitt gluggafag til austurs og þar komið fyrir kór og einnig lengd um eitt gluggafag til vesturs og þar komið fyrir forkirkju og turn smíðaður á hana.

Hönnuður: Bjarni Ólafsson trésmíðameistari.[2]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Grenjaðarstaðarkirkja er timburhús, 13,85 m að lengd og 6,25 m á breidd. Risþak er á kirkju og upp af framstafni er ferstrendur turn með risþaki. Kirkjan er klædd listaþili en þök bárujárni og hún stendur á steinhlöðnum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru fimm sexrúðu gluggar með brík yfir og einn á framstafni yfir dyrum. Hringgluggi er ofarlega á kórbaki. Fyrir kirkjudyrum eru vængjahurðir með brík og bjór yfir.

Forkirkja er yfir þvera kirkju. Í henni sunnan megin er stigi upp á söngloft yfir forkirkju og fremsta hluta framkirkju og fjölspjalda vængjahurðir að framkirkju. Inn af dyrum er gangur og bekkir hvorum megin hans. Kór er hafinn er yfir kirkjugólf um tvö þrep. Kórþilsveggur með bogadregnum kórdyrum er á mörkum framkirkju og kórs. Hvorum megin í kór eru lágir skilveggir. Geymsla er norðan megin en skrúðhús sunnan megin. Dyr eru á kórþilinu úr skrúðhúsi að prédikunarstól innst í framkirkju. Veggir forkirkju, sönglofts og kórs eru klæddir krossviðarplötum. Framkirkja er klædd spjaldaþili upp að syllu og brjóstlista undir gluggum en standþiljum yfir þeim. Yfir sönglofti og kór er panelklætt risloft en reitaskipt lágbogahvelfing yfir framkirkju.



[1]Hörður Ágústsson. Íslensk byggingararfleifð I. Ágrip af húsagerðarsögu 1750-1940, 67. Reykjavík 1998.

[2]Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Grenjaðarstaðarkirkja.